Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson var í fréttum snemma á árinu vegna óhóflegs aksturs á kostnað þingsins. Hann fékk tæpar fimm milljónir króna í greiðslur fyrir akstur árið 2017. Í viðtali við DV sagðist hann hafa verið svo heppinn að hann hafi aldrei lent í óhappi. Samflokksmenn Ásmundar vörðu hann í fjölmiðlum. Þannig lét Páll Magnússon hafa eftir sér: „Góða fólkið er bókstaflega að ærast af vandlætingu yfir því hvað Ásmundur Friðriksson er duglegur að sinna sínu gríðarstóra kjördæmi,” segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins“.
Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og fyrrverandi formaður VR, reifst við Gunnar Smára Egilsson í Silfrinu í lok október. Þar var meðal annars tekist á um kjarabætur en samtalið varð persónulegt, þegar Stefán Einar vísaði í umræðu um launamál starfsfólks á Fréttatímanum, sem fór á hausinn þegar Gunnar Smári var þar. Gunnar Smári spurði á móti hvort Stefán Einar væri ekki siðfræðingur. „Á að bjóða manni upp á svona?“ spurði hann áður en Egill Helgason þáttastjórnandi skikkaði leikinn.
Skúli Mogensen, eigandi WOW air, sendi starfsfólki bréf þegar til stóð að Icelandair myndi kaupa flugfélagið. Sá samruni rann út í sandinn. Indigo hefur nú fjárfest í WOW og nærri helmingur flotans hefur verið seldur eða vélunum skilað. Nokkur hundruð misstu vinnuna núna í desember.
Plöntulífeðlisfræðingurinn Jón Guðmundsson upplýsti í samtali við Fréttablaðið að rándýr strá, sem sérstaklega höfðu verið keypt og flutt til landsins frá Danmörku fyrir háar fjárhæðir, til að gróðursetja við bragga í Nauthólsvík, yxu víða á Íslandi.
Hrafn Jökulsson var einn þeirra sem flutti lögheimili sitt í Árneshrepp í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en þar hefur verið tekist á um hvort virkja eigi Hvalá. Ásbjörn Þorgilsson, eiginmaður oddvitans, lagði til að farið yrði með rottueitur að Dröngum, þar sem virkjunarandstæðingur stundar búskap.
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þ. Halldórsson varð hetja um stund þegar hann varði vítaspyrnu frá Lionel Messi í fyrsta leik Íslands á HM í knattspyrnu. Ísland gerði jafntefli í leiknum en tapaði svo hinum tveimur.
Ágúst Ólafur Ágústsson var áminntur af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar fyrir framgöngu sína gegn kvenkyns blaðamanni á Kjarnanum í sumarbyrjun, þar sem hann bæði svívirti hana og reyndi ítrekað að kyssa.
Steinar Skarphéðinn Jónsson, tengdafaðir markvarðarins Ögmundar Kristinssonar, mætti á fund blaðamanna með landsliðsþjálfurum Íslands þar sem þeir tilkynntu hvaða leikmenn færu fyrir Íslands hönd á HM í knattspyrnu í sumar. Steinar var afar ósáttur við að tengdasonurinn yrði ekki þeirra á meðal.
Björn Bragi Arnarsson káfaði á 17 ára stúlku á veitingastað á Akureyri seint í október. Atvikið náðist á myndband og vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum þegar það birtist þar. Hegðunin varð meðal annars til þess að Björn Bragi var settur af sem spyrill í Gettu Betur.
Knattspyrnuþjálfarinn Ólafur Þórðarson tók sterkt til orða í hlaðvarpsþættinum Návígi í apríl. Hann fékk bágt fyrir, meðal annars frá sjónvarpsmanninum Helga Seljan, sem svaraði Ólafi fullum hálsi: „Æ greyið steinþegiðu. Það að keyra vörubíl í kraftgalla gerir þig ekki að einhverjum old wise man.“
Alda Villiljós fór ófögrum orðum um karla í hlaðvarpsþættinum Hvað er svona merkilegt, sem fluttur var í apríl. DV gerði frétt um málið og athugasemdakerfið fór á flug. Í Stundinni kom fram að öll ummæli um karlmenn í þættinum hafi verið sett fram í kaldhæðni.
Sindri Þór Stefánsson, sem gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir aðild að þjófnaði á Bitcoin-tölvum, flúði af landi brott eftir að hafa verið í opnu fangelsi í varðhaldi. Umfangsmikil leit hófst af Sindra í kjölfarið. Hann steig fram í Fréttablaðinu 20. apríl og sagðist vera frjáls ferða sinna. Hann boðaði jafnfram að hann kæmi bráðum heim. Sindri fannst fáeinum dögum síðar í Hollandi, eftir að félagar hans höfðu birt sjálfsmynd af þeim á Instagram.
Póst með þessari yfirskrift sendi Bjarni Már Júlíusson, fyrrverandi framkvæmdastjóri ON, nokkrum konum í Orkuveitunni. Með fylgdi tengill frétt um að hjólreiðar bættu kynlífið en þær höfðu verið með Bjarna í liði í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon. Bjarna var sagt upp störfum í september vegna kynbundinnar áreitni í garð Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og annarra kvenkyns starfsmanna. Í kjölfar úttektar Reykjavíkurborgar á vinnustaðamenningu í OR, sagði Bjarni að þar hefði hann verið hreinsaður af ávirðingum um kynferðislega áreitni.
Þjálfaranum Jose Mourinho þótti mikið til líkamlegs atgervis íslensku landsliðsmannanna í knattspyrnu koma, eftir frammistöðu þeirra í jafnteflinu gegn Argentínu í fyrsta leik á HM. Mourinho hefði betur nýtt sér þjónustu kraftmikilla Íslendinga, á meðan hann stýrði Manchester United, því hann var rekinn frá félaginu nú rétt fyrir jól.
Allt ætlaði um koll að keyra á fyrsta borgarstjórnarfundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir sveitarstjórnarkosningar, þann 19. júní. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, sagði að með þessu áframhaldi yrðu næstu fjögur árin eins og spænski rannsóknarrétturinn.
Ólafi Ísleifssyni, þingmanni Flokks fólksins, varð ekki um sel þegar formaður og þingmenn Miðflokksins buðu honum á Klaustri að gerast þingflokksformaður í Miðflokknum, ef hann skipti um flokk. Ólafi var síðar vikið úr flokknum, ásamt Karli Gauta Hjaltasyni, eftir framgöngu þeirra í samtalinu alræmda á Klaustri.
Þetta voru allra fyrstu viðbrögð Gunnars Braga Sveinssonar við Klausturupptökunum. Ummælin lét hann falla í samtali við blaðamann DV. Eftir að brot úr samtölunum hófu að birtast í Stundinni og DV, og fleiri miðlum, kom annað hljóð í strokkinn. Gunnar Bragi sagði til að mynda í útvarpsviðtali að listinn væri langur yfir það fólk sem hann þyrfti að biðja afsökunar í kjölfar afhjúpunarinnar. Gunnar Bragi er í leyfi frá þingstörfum vegna málsins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, átti nokkur af grófustu ummælunum í spjalli sex þingmanna á Klaustri í nóvember lok. Með þessum orðum lýsti hann Ingu Sæland, formanni Flokk fólksins, þegar hann reyndi ásamt félögum sínum að fá tvo þingmenn Flokks fólksins til að skipta um flokk. Hann sagði líka að Inga væri „fokking tryllt“. Bergþór hefur ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, tekið sér leyfi frá þingstörfum vegna málsins.
Ráðherrann Lilja Alfreðsdóttir talaði enga tæpitungu í mögnuðu viðtali í Kastljósi þann 5. desember, þar sem hún ræddi um framgang þingmannanna sex sem óðu á súðum á fylleríi á vínveitingastaðnum Klaustri. Framganga hennar féll svo í kramið að hún var ausin lofi úti um allt samfélag.
Lektorinn Kristinn Sigurjónsson missti vinnuna sína við Háskólann í Reykjavík í október eftir hatursfull ummæli um konur í Facebook-hópnum Karlmennskuspjallið. Kristinn hefur síðan leitað réttar síns og vill 57 milljónir frá skólanum.