Veðurhorfur næstu daga eru með besta móti fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins þar sem búist er við allt að 18 stiga hita og glampandi sól á laugardaginn. „Það verður fínasta veður, bjart og fallegt og þetta geta verið orðið mjög góðir dagar,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um veðurspár á föstudag og laugardag.
Rætist spá Veðurstofunnar verður þetta heitasti dagurinn í Reykjavík það sem af er ári og þykir líklegt að borgarbúar munu taka veðrinu fagnandi.

Illileg mismunun milli staða
„Þetta er þó svolítið brothætt,“ vara veðurfræðingurinn við. Stutt er í norðaustan áttina og því skipti staðsetning höfuð máli á þessum heitu dögum. „Það verður sjálfsagt nokkuð misskipt hvort fólk sé austarlega í borginni í skjóli af Esjunni eða vestast á Seltjarnarnesi eða Völlunum í Hafnarfirði.“
Á þeim stöðum verður ekki eins mikið skjól. „Fólk mun þá finna illilega fyrir því að einhverjir eru hálfnaktir úti í garði á meðan aðrir þurfa nánast að vera í dúnúlpunni sinni,“ segir Óli Þór kíminn.
Á sunnudaginn tekur svo að rigna og hvetur Óli Þór fólk til að klára það sem þarf að gera úti við á laugardaginn í stað þess að fresta því fram á sunnudaginn.
Allir fá eitthvað næstu daga
Veðrið er nokkuð staðbundið næstu þrjá daga og er ekki að búast við miklum hita á Norður- eða Austurlandi þar sem hiti verður á bilinu tvær til sex gráður víðast hvar.
„Með sunnanáttinni fer að hlýna fyrir norðan en fram að því verður ansi svalt. Þegar líður á vikuna fá þau mun betri tölur,“ lofar veðurfræðingurinn. „Það munu allir fá eitthvað á næstu dögum.“
