Veður­horfur næstu daga eru með besta móti fyrir íbúa höfuð­borgar­svæðisins þar sem búist er við allt að 18 stiga hita og glampandi sól á laugar­daginn. „Það verður fínasta veður, bjart og fal­legt og þetta geta verið orðið mjög góðir dagar,“ segir Óli Þór Árna­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands um veður­spár á föstu­dag og laugar­dag.

Rætist spá Veður­stofunnar verður þetta heitasti dagurinn í Reykja­vík það sem af er ári og þykir lík­legt að borgar­búar munu taka veðrinu fagnandi.

Klambratún er ætíð vinsæll viðkomustaður á sólríkum sumardögum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Illi­leg mis­munun milli staða

„Þetta er þó svo­lítið brot­hætt,“ vara veður­fræðingurinn við. Stutt er í norð­austan áttina og því skipti stað­setning höfuð máli á þessum heitu dögum. „Það verður sjálf­sagt nokkuð mis­skipt hvort fólk sé austar­lega í borginni í skjóli af Esjunni eða vestast á Sel­tjarnar­nesi eða Völlunum í Hafnar­firði.“

Á þeim stöðum verður ekki eins mikið skjól. „Fólk mun þá finna illi­lega fyrir því að ein­hverjir eru hálf­naktir úti í garði á meðan aðrir þurfa nánast að vera í dún­úlpunni sinni,“ segir Óli Þór kíminn.

Á sunnu­daginn tekur svo að rigna og hvetur Óli Þór fólk til að klára það sem þarf að gera úti við á laugar­daginn í stað þess að fresta því fram á sunnu­daginn.

Allir fá eitt­hvað næstu daga

Veðrið er nokkuð stað­bundið næstu þrjá daga og er ekki að búast við miklum hita á Norður- eða Austur­landi þar sem hiti verður á bilinu tvær til sex gráður víðast hvar.

„Með sunnan­áttinni fer að hlýna fyrir norðan en fram að því verður ansi svalt. Þegar líður á vikuna fá þau mun betri tölur,“ lofar veður­fræðingurinn. „Það munu allir fá eitt­hvað á næstu dögum.“

Ætla má að ylströndin í Nauthólsvík muni iða af lífi á laugardaginn.
Fréttablaðið/Anton Brink