Sextán hafa nú fundist látin eftir flóð sem brast á í Himala­ya fjöllunum á Ind­landi í gærmorgun og 165 er enn saknað.

Talið er að flóðið hafi orðið eftir að stórt stykki brotnaði úr jökli og féll í á sem kom af stað miklu flóði, rauf stíflu og fór yfir þorp og vinnusvæði þar sem verið er að reisa vatnsaflsvirkjun. Flestir sem voru á svæðinu voru að vinna að gerð stíflu og vatnsaflsvirkjunar. 

Björgunarsveitir unnu að því í morgun að ná til á fjórða tug verkamanna sem lokuðust inni í göngum á vinnusvæðinu. Ekki hefur náðst samband við þá síðan að flóðið skall á en talið er að alls 37 starfsmenn séu fastir inni.

Í gær var tólf verkamönnum bjargað úr öðrum aðskildum göngum á svæðinu. Þeir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Einn verkamannanna, Rakesh Bhatt, segir í samtalið við AP-fréttastofuna að þeir hafi verið að vinna í göngunum þegar vatnið kom streymandi inn.

„Í fyrstu héldum við að þetta væri rigning og að vatnið myndi á endanum minnka. Þegar við sáum drullu og rusl koma inn á miklum hraða vissum við að eitthvað stórt hefði gerst. Einn mannanna náði sambandi við lögreglu með farsíma sínum en við biðum í tæpar sex klukkustundir eftir aðstoð," segir Bhatt.

Yfirvöld í Uttarakhand-héraði á Norður Indlandi óttast að mun fleiri séu látin.

Miklar skemmdir

Flóðið sópaði burtu brúm, vegum og tveimur virkjunum í ánni. Þá varð aðal þjóðvegurinn á svæðinu fyrir skemmdum og hefur það mikil áhrif á alla aðflutninga björgunarsveita og búnaðar þeirra. Yfir tvö þúsund manns hafa tekið þátt í björgunaraðgerðunum frá því í gær, en þær hófust á ný í morgun er það fór að birta.