Að minnsta kosti 125 eru látnir eftir óeirðir á fótboltaleik í Malang í Indónesíu. Um er að ræða einar mannskæðustu óeirðir á íþróttaleikvangi í sögunni.

Leikur Arema FC og Persebaya Surabaya endaði með tapi heimaliðsins Arema en stuðningsmenn liðsins brugðust illa við tapinu og streymdu inn á fótboltavöllinn. Ofbeldi á fótboltaleikjum í Indónesíu er ekki óþekkt en liðin tvo hafa verið erkifjendur í langan tíma.

Óeirðarseggi veltu meðal annars lögreglubílum innan leikvangsins.
Mynd/EPA

Lögregla brást við með því að skjóta táragasi að mannmergðinni sem endaði með múgæsingu þegar fólk reyndi að komast út af vellinum. Fjöldamargir urðu undir fólksfjöldanum við útganginn og köfnuðu. Talið er að 32 hafi látist inn á vellinum, þar á meðal börn.

Beiting á táragasi er stranglega bönnuð samkvæmt reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA og hafa samtökin kallað eftir að rannsókn verði framkvæmd.

Þá er einnig talið að leikvangurinn hafi verið yfirfullur og um 4000 fleiri hafi verið á vellinum en leyfilegt var.

Óeirðirnar færðust svo út fyrir leikvanginn þar sem kveikt var í bílum og þeim hvolft og ráðist gegn lögreglumönnum.

Áhorfendur leikvangsins réðust gegn lögreglu þegar hún reyndi að stöðva þá.
Mynd/EPA

Engir fleiri leikir á meðan rannsókn stendur

Joko Widodo, forseti Indónesíu hefur lagt blátt bann við því að fleiri fótboltaleikir fari fram í landinu á meðan rannsókn á óeirðunum fer fram. Hann biðlar til landa sinna að „þetta verði síðasti fótboltaleikurinn sem endar með harmleik í landinu.“

Fréttin var uppfærð klukkan 9:20, mánudaginn 3. október eftir að tölur frá yfirvöldum í Indónesíu voru uppfærðar. Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt að 174 einstaklingar hefðu látið lífið og var þar byggt á tölum frá yfirvöldum í Indónesíu en þær tölur hafa nú verið uppfærðar og nú er sagt að minnsta kosti 125 hafi látið lífið.