Sautján hundruð og tuttugu og tveir einstaklingar voru á biðlista síðastliðinn október eftir hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og hvíldarinnlögn um land allt.

Af þeim eru 474 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæmum Suðurnesja, Austurlands og Vestfjarða.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur, varaþingmanns Framsóknarflokks, um dvalar- og hvíldarrými.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á síðasta ári um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land. Áætlunin nær til ársins 2023 en til stendur að byggja 550 ný rými og endurbæta 240.

Síðastliðinn október voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir voru á biðlista eftir dvalarrými og 560 eftir hvíldarinnlögn, þjónustu til stuðnings sjálfstæðri búsetu.  

Í heilbrigðisumdæmi Vesturlands voru 52 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 24 eftir dvalarrými og 70 voru á hvíldarinnlagnalista.

Á Vestfjörðum voru 17 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 8 voru á hvíldarinnlagnalista en engin dvalarrými eru í umdæminu.

Í umdæmi Norðurlands voru 76 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 48 eftir dvalarrými og 290 voru á hvíldarinnlagnalista.
Á Austurlandi voru 20 á biðlista eftir hjúkrunarrými og 43 voru á hvíldarinnlagnalista. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæminu.

Þrjátíu og sjö einstaklingar eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á Suðurlandi, 13 eftir dvalarrými og 82 voru á hvíldarinnlagnalista

Í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja voru 22 á biðlista eftir hjúkrunarrými og 89 voru á hvíldarinnlagnalista. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæminu.