Sautján prósent Lundúnabúa og allt að fimm prósent Breta hafa þróað mótefni við COVID-19 samkvæmt nýrri rannsókn.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, greindi frá niðurstöðum mótefnamælingarinnar í gær samhliða því að kynna fyrirhugaða útgáfu mótefnaskírteina.

Náð meiri útbreiðslu í höfuðborginni

Er talið að hærri tíðni sjúkdómsins í Lundúnum skýrist af því að þróun faraldursins hafi þar verið tveimur vikum á undan restinni af Bretlandi þegar gripið var til útgöngutakmarkanna.

Um er að ræða fyrstu niðurstöður mótefnamælingar á vegum breskra stjórnvalda og byggja niðurstöðurnar á blóðsýnum úr eitt þúsund Bretum.

Notast var við próf frá svissneska lyfjafyrirtækinu Roche sem hefur hlotið samþykki breskra heilbrigðisyfirvalda.

Tíu milljón próf aðgengileg á næstu vikum

Að sögn heilbrigðisráðherrans verður almenningi gert kleift að fara endurgjaldslaust í mótefnamælingu frá og með næstu viku en bresk stjórnvöld hafa fest kaup á tíu milljón slíkum prófum.

Sérfræðingar segja að taka þurfi mið af litlu úrtaki rannsóknarinnar og sjá hvað mótefnamæling á stærri skala eigi eftir að leiða í ljós.

Enn er óljóst hversu vel varið sýkt fólk er fyrir því að sýkjast aftur af kórónaveirunni og hversu lengi það ónæmi varir.