Barnahjónabönd eru enn leyfileg á Íslandi gegn því að fengin sé undanþága. Af þeim átján sem fengið hafa undanþágu frá hjúskaparlögum frá árinu 1998, til að ganga í hjónaband þrátt fyrir að hafa ekki náð átján ára aldri.

Aðeins einn drengur hefur óskað eftir og fengið undanþágu frá lögunum og var það árið 2007, þegar hann var sautján ára gamall, en hjónaefni hans var þá átján ára.

Utan hans hafa einungis konur óskað eftir og fengið umrædda undanþágu og eru þær alls 17 talsins.

Í flestum tilvikum er umsækjandi undanþágu sautján ára, en í tveimur tilvikum er um sextán ára stúlku að ræða. Aldur hjónaefnis er oftast í kringum 25 ár. Í tveimur tilvikum árin 2004 og 2005 var um að ræða 17 ára stúlku og 31 árs hjónaefni. Engin undanþága hefur þó verið veitt frá árinu 2016.

Dómsmálaráðuneytið sendi allsherjar- og menntamálanefnd þessar upplýsingar í dag vegna frumvarps sem Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lagði fram en í því er lagt til að afnumin verði heimild til að veita fólki leyfi til að ganga í hjúskap þótt það uppfylli ekki almenn aldursskilyrði hjúskaparlaga.

Skil­greining Evrópu­ráðsins á barna­hjóna­bandi er þegar að minnsta kosti annar aðilinn er undir á­tján ára aldri. Sam­kvæmt Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna sem lög­festur var hér á landi 2013 brjóta barna­hjóna­bönd m.a. gegn réttindum barna til heilsu og verndar gegn of­beldi. Enn fremur hafa allar Norður­landa­þjóðirnar breytt lögum sínum til að banna barna­hjóna­bönd, nema Noregur og Ís­land.