Fyrir meira en 168 milljónir barna hafa skólarnir þeirra verið lokaðir í nánast heilt ár vegna út­breiðslu kórónu­veirunnar. Enn fremur hafa um það bil 214 milljónir barna – eða 1 af hverjum 7 á heims­vísu – misst af meira en þremur fjórðu af skóla­árinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem UNICEF, Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna, gaf út í gær.

Til að vekja at­hygli á því neyðar­á­standi sem ríkir í mennta­málum vegna kórónu­veirunnar af­hjúpaði UNICEF við það til­efni inn­setninguna „Pandemic Class­room“ við höfuð­stöðvar sínar í New York. Er inn­setning búin til úr 168 tómum skóla­borðum og skóla­töskum og táknar hvert borð milljón börn sem hafa ekki komist í skólann í heilt ár.

Í til­kynningu frá UNICEF segir að með inn­setningunni vilji þau senda skila­boð til ríkis­stjórna heimsins um að for­gangs­raða opnun skóla og að bæta að­gang að menntun fyrir þau milljónir barna sem hafa ekki getað stundað fjar­nám á meðan á lokunum stendur.

„Með hverjum deginum sem líður falla þau börn sem geta ekki farið í skólann lengra aftur úr, og eru jaðar­settustu börnin í mestri hættu. Við eigum ekki efni á að fara inn í annað ár með tak­mörkuðum skóla­opnunum fyrir þessi börn,” segir Henrietta Fore, fram­kvæmda­stjóri UNICEF, í til­kynningu.

Hvert borð táknar eina milljón barna sem ekki hefur komist í skólann í eitt ár vegna COVID-19.
Mynd/UNICEF

Horfa þarf á sér­stakar þarfir hvers nemanda

Það þarf ekki að velkjast í vafa um hversu nei­kvæð á­hrif lang­varandi lokun skóla getur haft á börn, ung­menni og sam­fé­lög í heild. Meiri­hluti skóla­barna í heiminum treystir á skólann sem ekki einungis stað til að læra heldur einnig stað þar sem þau geta átt sam­skipti við jafn­aldra sína, fengið sál­ræna að­stoð, bólu­setningar og heil­brigðis­þjónustu. Auk þess eru skóla­mál­tíðarnar oft næringar­ríkasta mál­tíðin sem börn fá þann daginn.

UNICEF hefur lengi varað við því að því lengur sem röskun er á skóla­starfi og engin önnur tæki­færi bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni alveg upp úr námi. Annað ár heims­far­aldursins er að hefjast og UNICEF óttast að tala barna utan skóla muni aukast um 24 milljónir vegna far­sóttarinnar.

Þegar nem­endur snúa til baka í kennslu­stofurnar sínar munu þeir þurfa stuðning við að að­lagast og ná upp eftir lang­varandi fjar­veru. Á­ætlanir um opnanir skóla þurfa að taka til­lit til þess að mörg börn hafa misst mikið úr námi og hafa ekki haft tæki­færi til þess að stunda fjar­nám á meðan. UNICEF hvetur stjórn­völd til að horfa á sér­stakar þarfir hvers nem­enda fyrir sig og veita al­hliða þjónustu sem nær til stuðnings við nám, heilsu, næringar, geð­heil­brigði og vernd gegn of­beldi. Til þess að styðja við slíkar að­gerðir hafa UNICEF, UNESCO, UN­HCR, WFT og Al­þjóða­bankinn saman gefið út Á­ætlun um endur­opnun skóla, sem eru hag­nýtar ráð­leggingar fyrir stjórn­völd og sveita­stjórnir.

Skýrsluna má nálgast hér.