Alls liggja nú 16 sjúklingar á Landspítala vegna Covid. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef spítalans.

Þar kemur fram að tólf liggja á bráðalegudeildum spítalans og að sex þeirra eru óbólusettir. Á gjörgæslu eru fjórir sjúklingar. Engir sjúklingar í innlögn eru hálfbólusettir. Sjúklingur á sjötugsaldri með Covid-19 lést á Landspítala á síðasta sólarhring.

Í tilkynningunni kemur fram að alls hafi 88 sjúklingar lagst inn á Landspítala með Covid í fjórðu bylgju faraldursins. Um þriðjungur þeirra er óbólusettur. Fimmtán hafa þurft gjörgæslustuðning. Meðalaldur innlagðra er 59 ár. Alls eru 947 sjúklingar, þar af 227 börn, í Covid göngudeild spítalans . Þrír sjúklingar eru metnir rauðir og 32 einstaklingar gulir og þurfa nánara eftirlit. Fimmtán starfsmenn eru í einangrun og 33 í sóttkví A, sex starfsmenn eru í sóttkví B og 111 í sóttkví C.

Alls greindust 103 smit í gær innanlands og var meirihluti greindra utan sóttkvíar.

Tilkynnt var um tilslakanir í dag, þar á meðal að 500 manna samkomur verði heimilaðar með notkun hraðprófa.