Bahia Bakari var að­eins tólf ára þegar hún komst lífs af úr skelfi­legu flug­slysi á Kómor­eyjum árið 2009. Bahia var sú eina sem komst lífs af úr slysinu sem varð 152 mann­eskjum að bana.

Nú standa yfir réttar­höld í Frakk­landi vegna slyssins og gaf Bahia vitnis­burð sinn í dóm­sal um þennan ör­laga­ríka dag í júní fyrir tólf árum. Breska blaðið Guar­dian fjallaði um málið á vef sínum í gær.

Fannst í sjónum þrettán tímum síðar

Vélin var á leið frá Sana‘a í Jemen til Mor­oni, stærstu borgar Kómor­eyja, þegar hún brot­lenti í sjónum. Þrettán tímum eftir slysið fannst Bahia í sjónum þar sem hún hélt sér í brak úr vélinni. Vélin var í eigu jemenska ríkis­flug­fé­lagsins Yemenia Airwa­ys.

Bahia hefur ekki tjáð sig opin­ber­lega um slysið fram til þessa og því ríkti tals­verð eftir­vænting hjá fjöl­miðla­mönnum og flug­á­huga­fólki sem hlýddu á fram­burð hennar.

Með henni í flug­vélinni var móðir hennar en þær lögðu af stað frá París til Kómor­eyja, með milli­lendingu í Sana‘a, til að vera við­staddar brúð­kaup afa Bahiu á Kómor­eyjum. Alls voru 66 franskir ríkis­borgarar um borð í vélinni.

Fann bragð af elds­neytinu

Bahia sagðist hafa verið orðin úr­kula vonar þegar björgunar­menn komu auga á hana eftir margra klukku­tíma volk í sjónum. Hún rifjaði upp að hún hafi fundið sterkt bragð af elds­neyti vélarinnar þegar hún gleypti sjó á meðan hún reyndi að halda sér á floti.

Flug­vélin var af gerðinni Air­bus A310-324, en slíkar vélar gera ráð fyrir 220 til 240 far­þegum. Vélin var því ekki full og rifjaði Bahia upp að flugur hafi verið um borð og lyktin í far­þega­rýminu minnt á lykt sem alla jafna er á al­mennings­salernum. Flugið hafi þó gengið eðli­lega fyrir sig, eða allt þar til vélin bjó sig til lendingar.

„Ég fann mikla ó­kyrrð skyndi­lega en taldi að það væri eðli­legt,“ sagði hún og bætti við að skyndi­lega hafi hún fengið eitt­hvað sem minnti á raf­lost í gegnum líkamann. Bahia sagðist ekki muna neitt frá því augna­bliki og þar til hún rankaði við sér í sjónum.

Mis­tök flug­manna

Ekki fannst neitt at­huga­vert við tækja­búnað vélarinnar og leiddi rann­sókn í ljós að flug­menn vélarinnar hafi gert mis­tök þegar þeir komu inn til lendingar á Kómor­eyjum. Þessi mis­tök urðu til þess að þeir misstu stjórn á vélinni.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að full­trúar Yemenia Air­lines hafi ekki verið við­staddir réttar­höldin. Hafa lög­menn fé­lagsins harð­neitað því að hafa gert nokkuð sak­næmt. Sak­sóknarar saka fé­lagið aftur á móti um lé­lega þjálfun flug­manna og þá haldi fé­lagið á­fram að lenda á flug­vellinum í Mor­oni í skjóli nætur þrátt fyrir tak­markaða lýsingu á vellinum.

Taldi sig hafa dottið úr flug­vélinni

Bahia rifjaði upp í dóm­salnum að hún hafi verið mjög ringluð meðan hún velktist um í sjónum. Þannig taldi hún í fyrstu að hún hafi ein dottið úr flug­vélinni en allir hinir hefðu komist á á­fanga­stað. Það var ekki fyrr en á sjúkra­húsinu að sál­fræðingur tjáði henni að hún hefði ein komist lífs af úr slysinu.

„Það erfiðasta í þessu ferli hefur verið söknuðurinn vegna móður minnar. Við vorum mjög nánar,“ sagði hún.

Í frétt Guar­dian kemur fram að flug­fé­lagið geti átt von á sekt að fjár­hæð 225 þúsund evrur, upp­hæð sem jafn­gildir rúmum 30 milljónum ís­lenskra króna.