Alls hafa um 1500 leik­skóla­börn verið án allrar leik­skóla­þjónustu frá upp­hafi verk­falls Eflingar. „Gríðar­legur munur er milli leik­skóla hvernig verk­fallið kemur niður á for­eldrum,“ segir Helgi Gríms­­son, sviðs­­stjóri skóla- og frí­­stunda­­sviðs Reykja­víkur­­borgar í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Eðli­lega eru for­eldrar og for­ráða­menn komnir í mikla klemmu og margir hverjir eru í mjög erfiðum að­stæðum.“ Helgi bendir á að börn sem sækja leik­skóla í Breið­holti fái mun minni leik­skóla­þjónustu en börn í öðrum borgar­hlutum.

Foreldrar leita allra ráða


Þá hafa fjöl­margir for­eldrar leitað til skóla- og frí­stundar­sviðs borgarinnar til að óska eftir auknum tíma fyrir börn sín í leik­skólunum. „Það er rosa­lega erfitt að verða við því þar sem við verðum að beita jafn­ræði gagn­vart öllum börnum sem eru á leik­skólunum.“

Áður en verk­fall hófst hafði Helgi óskað eftir að svo­kallað fá­liðunar­ferli yrði í öllum leik­skólum þannig skerðing myndi skiptast jafnt milli for­eldra. Ekki náðist sátt um þá til­lögu.

„Það er auð­vitað mjög slæmt að sam­­kvæmt kjara­­samningum þurfi for­eldrar að vera launa­­laust heima með börnum sínum á meðan á þessum að­­gerðum stendur.“

Verk­fallið hefur í heildina á­hrif á 3500 börn og hljóta því um 2000 börn tak­markaða þjónustu og um 1500 enga þar til verk­falli lýkur.

1500 leikskólabörn verða heima á meðan á verkfalli stendur.

Á­hrif verk­fallsins eru þrí­þætt

1. Starf­semi leik­skóla­deilda fellur niður.

„Það er þannig að ef að deildar­stjóri er eflingar­starfs­maður þá er engin þjónusta við börnin á þeirri deild á meðan á verk­falli stendur.“ Starfs­menn slíkra deilda myndu þar af leiðandi ekki sinna verk­efnum með börnum.

„Í leik­skóla með fimm deildum myndi það þýða að ef tveir deildar­stjórar eru Eflingar­starfs­menn þá fellur niður allt starf fyrir þau börn sem eru á þessum tveimur deildum.“

2. Tak­mörkun á þjónustu á leik­skólum

Þau börn sem eru undir deildar­stjóra sem er leik­skóla­kennari fá þjónustu en magn þjónustunnar ræðst af því hve margir starfs­menn á þeim deildum eru eflingar­starfs­menn.

„Á einni deild eru þá kannski fimm starfs­menn með deildar­stjóra sem er leik­skóla­kennari en af þeim eru þrír eflingar­starfs­menn. Það þýðir að við reiknum börn á tvo starfs­menn og svo verður því skipt eftir dögum hvaða barn kemst í leik­skólann á hvaða tíma.“

3. Skerðing á mötu­neytis­þjónustu

Starf­semi mötu­neyta leggst niður í sumum leik­skólum en hellst ó­skert á öðrum. „Í sumum leik­skólum þá er engin Eflingar­starfs­maður í sam­hengi við Reykja­vík af því að við erum með svo­kallaða út­vistun á mötu­neytinu sem þýðir að það er starfs­fólk frá einka­fyrir­tæki sem kemur og þjónusta eld­húsið, þar er matar­þjónusta ó­breytt.“

Í mörgum leik­skólum eru þó Eflingar­starfs­menn að störfum í mötu­neytinu og þá fellur mötu­neytis­þjónusta niður. „Það er að segja börnin fá ekki mál­tíð í há­deginu og það er ekki neina morgun­hressingu svo dæmi sé tekið,“ bætir Helgi við.