Fimm­tán ára gömul stúlka slasaðist í flug­línunni í Perlunni á fimmtudag. Stúlkan fékk vægan heila­hristing og er mikið marin á baki auk þess sem hún er verkjuð í hálsi, baki og vinstri hendi.

Framkvæmdastjóri Perlunnar segir að mannleg mistök hafi átt sér stað og að bremsa hafi ekki verið á réttum stað. Hann harmar slysið og segir að þetta muni ekki gerast aftur. Búið er að fara yfir verkferla með starfsfólki og erlendum framleiðendum.

Brá að sjá að línan væri enn opin

Móðir stúlkunnar, Lovísa V. Guð­munds­dóttir, segir í samtali við Fréttablaðið að henni hafi brugðið þegar hún sá að flug­línan er enn opin en starfs­maður flug­línunnar hafði tjáð henni eftir slysið að henni yrði lokað þar til að sænskir rekstrar­aðilar hennar væru búnir að fara yfir upp­setningu línunnar.

Í ó­hugnan­legu mynd­skeiði sem vinur stúlkunnar tók má greini­lega sjá hvernig hún kemur á fullri ferð niður og hvernig hún fær mikið högg við enda línunnar.

„Þegar hún er komin í ferðina hugsar hún rétt áður en hún stoppar að hún er á rosa­lega mikilli ferð og það hægist ekkert á henni fyrr en búnaðurinn snar­stoppar og hún rykkist og hendist til eins og tusku­dýr,“ segir Lovísa.

Hún segir að dóttir hennar hafi misst andann og verið í al­geru á­falli. Hún hafi heyrt að það væri kallað til hennar en gat ekki komið upp orði vegna þess að hún náði ekki andanum.

„Starfs­maður þurfti að klifra upp í línuna og festa sig í búnaðinn til að ná henni inn á lendingar­svæðið þar sem það var ekki hægt að ná henni niður,“ segir Lovísa sem segir að það sem fylgdi hafi ekki verið til þess að bæta á­standið.

Myndbandið má sjá hér að neðan. Dóttir Lovísu er til vinstri á línunni.

Hringdu hvorki í foreldra eða Neyðarlínu

Dóttir hennar var látin ganga sjálf frá lendingar­staðnum upp í Perluna þar sem að starfs­maður tekur á móti henni og skoðar hana en spyr þó fyrst hvort að hún hafi ekki skrifað undir skil­mála flug­línunnar. Í stað þess að hringja á 112 fer starfs­maðurinn sjálf með hana niður á bráða­mót­töku Land­spítalans.

„Aldrei á þessum tíma var hringt í okkur, for­eldra hennar, eða hún spurð hvort það ætti að hringja í ein­hvern,“ segir Lovísa og er ekki sátt. Hún segir að dóttir hennar hafi svo sjálf hringt í hana af bráða­mót­tökunni og beðið hana að koma.

„Það er mjög skrítið að barnið hringi sjálf frá bráða­mót­tökunni. Hún grét svo mikið að ég náði ekki hvað hafði gerst. Ég keyrði upp á bráða­mótt­töku með hjartað í buxunum því ég vissi ekkert hvað hafði gerst,“ segir Lovísa.

Hún er 15 ára. Var hún með leyfi frá ykkur?

„Nei, hún er í ung­linga­vinnunni þarna rétt hjá og þau fóru fé­lagarnir saman eftir vinnu,“ segir Lovísa sem segir að dóttir hennar hafi skrifað undir ein­hverja pappíra og veltir því fyrir sér hvort að það sé lög­legt.

Hún segist fegin að ekki fór verr en vill vara aðra við að fara í flug­línuna. Hún segist enn fremur von­svikin að henni hafi verið sagt að það yrði lokað en svo sé aug­ljós­lega opið.

Gunnar Gunnarsson er forstjóri Perlunnar sem sér um rekstur Fluglínunnar.
Fréttablaðið/Ernir

Lokuðu þar til búið var að greina vandann

Gunnar Gunnars­son, for­stjóri Perlunnar segir í sam­tali við Frétta­blaðið að mann­leg mis­tök hafi átt sér stað þegar slysið átti sér stað.

„Það var greint hvað gerðist. Það er efri og neðri pallur og starfsmaður á neðra palli gaf „Go“ án þess að sjá að aðalbremsan var ekki í réttri stöðu þegar barnið fór niður. Um er að ræða marglaga bremsukerfi og þegar aðalbremsan er ekki í réttri stöðu verður bremsun miklu harkalegri en hún á að vera. Hann er miður sín og er gríðarlega leiður að þetta gerðist, en þarna áttu sér stað mannleg mistök,“ segir Gunnar.

Búnaðurinn er frá fyrir­tæki frá Europe Zipline og er að sögn Gunnars einn sá besti sinnar tegundar í heiminum en þegar línan var sett upp kom starfs­maður frá fyrir­tækinu og þjálfaði starfs­mennina sem starfa hér.

Gunnar segir að eftir slysið hafi línunni verið lokað þar til það var búið að greina hvað gerðist og að í kjöl­farið hafi verið farið yfir alla verk­ferla með starfs­fólki og er­lendu fram­leið­endum línunnar.

„Þetta á ekki að geta gerst aftur. Starfs­maðurinn sá ekki að bremsan var ekki í réttri stöðu,“ segir Gunnar.

Munu bæta verkferla

Spurður hvers vegna ekki var hringt í 112, for­eldra og af hverju starfs­maður skutlaði barninu á bráða­mót­tökuna segir Gunnar að starfs­menn hafi talið stúlkuna vera orðna 18 ára og þess vegna hafi ekki verið hringt í for­eldra hennar.

Hvað varðar að hringja í 112 þá sé það eitt­hvað sem þurfi að laga í þeirra verk­ferlum.

En ég biðst af­sökunar á því að það hafi ekki verið hringt í for­eldrana og það mun ekki koma fyrir aftur

„Þarna varð slys vegna mann­legra mis­taka en þú finnur ekki öruggari línu en þessa og þess vegna er hún opin núna,“ segir Gunnar og bætir við:

„Okkur þykir þetta rosa­lega leiðin­legt og viljum engin slys. En þarna urðu mann­leg mis­tök. En ég biðst af­sökunar á því að það hafi ekki verið hringt í for­eldrana og það mun ekki koma fyrir aftur. Við munum gera betur,“ segir Gunnar.

Á vef Flug­línunnar segir að til þess að fara í hana þurfi fólk að vera í það minnsta 120 sentí­metrar á hæð og vera á milli 30 til 110 kíló og að börn undir sex ára aldri þurfi að vera í fylgd með full­orðnum. Í á­byrgðar­lýsingu segir að for­eldrar barna undir 18 ára þurfi að skrifa fyrir þeirra hönd undir á­byrgðar­lýsinguna. Það gerði dóttir Lovísu þó sjálf.