Lög­reglan í Garland, út­hverfi Dallas í Banda­ríkjunum, hand­tók í gær fjór­tán ára pilt sem grunaður er um þrjú morð.

Þrjú ung­menni á aldrinum 14 til 16 ára voru skotin til bana á bensín­stöð í borginni á sunnu­dags­kvöld og er pilturinn grunaður um verknaðinn. 15 ára piltur var einnig skotinn og liggur hann þungt haldinn á sjúkra­húsi.

Í frétt Dallas Morning News kemur fram að lög­regla hafi stuðst við upp­tökur úr öryggis­mynda­vélum til að bera kennsl á byssu­manninn. Á upp­tökum sést þegar fjögur ung­menni ganga saman inn á um­rædda bensín­stöð.

Skömmu síðar er pall­bíl lagt við bensín­stöðina og sést byssu­maðurinn ganga út og opna dyrnar á bensín­stöðinni áður en hann hefur skot­hríð. Lög­regla leitar nú að öku­manni bif­reiðarinnar sem á­rásar­maðurinn var far­þegi í.