132 and­lát vegna kóróna­veirunnar hafa nú verið stað­fest og eru tæp­lega sex þúsund taldir vera smitaðir af veirunni. Banda­ríkin og Japan eru byrjuð að flytja ríkis­borgara sína frá Kína og hafa önnur land hafið skipu­lagningu á því hvernig ríkis­borgurum þeirra, sem staddir eru í Kína, verða fluttir á brott.

Dauðs­föllum af völdum veirunnar hefur fjölgað hratt undan­farna daga en í gær­morgun var sagt frá því að 106 hefðu látist af hennar völdum. Lang­flest dauðs­föllin hafa verið í Hube-héraði þar sem veiran er talin eiga upp­runa sinn.

Kína hefur sett á miklar ferða­tak­markanir til þess að reyna að hefta út­breiðslu kóróna­veirunnar og þá hafa mörg flug­fé­lög hætt, eða fækkað flugum frá megin­landi Kína.

Banda­ríkin og Japan hafa hafið brott­flutning ríkis­borgara sinna frá Kína, og Evrópu­sam­bands­ríki og Ástralía eru sögð vera að skipu­leggja brott­flutning ríkis­borgara sinna.

Ástralir hafa verið gagn­rýndir fyrir þau á­form sín að allir sem verða fluttir frá Kína verði settir í tveggja vikna ein­angrun á Jóla-eyju. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jóla-eyja verður að bit­beini í Ástralíu, en áströlsk yfir­völd hafa síðan 2003 hýst þar hælis­leit­endur. Þykja að­stæður á eyjunni vera slæmar og hafa Sam­einuðu þjóðirnar gagn­rýnt að fólki sé haldið þar.