„Fólk var mætt snemma og það var röð rétt í byrjun. Við opnuðum húsið rétt fyrir klukkan 10 og þá kláraðist röðin,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Bólu­setningar­á­tak hófst í Laugar­dals­höll í morgun þegar byrjað var að gefa örvunar­skammta. Byrjað var að boða þau sem voru bólu­sett fyrst í vor, 60 ára og eldri og fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma.

Röð myndaðist fyrir utan Laugar­dals­höll í morgun áður en húsið opnaði en hún var fljót að hverfa, að sögn Ragn­heiðar. Hefur fram­kvæmdin gengið vel það sem af er degi og segir Ragn­heiður að búið hafi verið að gefa um 1.300 manns örvunar­skammt á fyrsta hálf­tímanum.

„Við boðuðum tæp tíu þúsund í dag og svo er spurning hverjar heimturnar verða,“ segir Ragn­heiður sem vonar að sem flestir mæti. Bólu­sett verður mánu­daga, þriðju­daga og mið­viku­daga frá klukkan 10-15 og stendur fyrsti hluti á­taksins í fjórar vikur.

Öllum ein­stak­lingum, 16 ára og eldri, mun standa örvunar­skammtur af bólu­efni gegn CO­VID-19 til boða. Allir fá boð en ein­staklingar mega koma í Laugar­dals­höll ef það eru liðnir um það bil sex mánuðir frá seinni skammti grunn­bólu­setningar, að því er segir á vef Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins.

Nánar á vef Landlæknis.