Brahim Ghali, forseti Vestur-Sahara og leiðtogi þjóðfrelsishreyfingarinnar Polisario, segist vilja flytja Íslendingum boðskap vináttu og virðingar. Hann var staddur hér á landi í vikunni og ræddi við Fréttablaðið um sjálfan sig og stöðuna í þessu strjálbýla en þó fjölmennasta ríki þess sem Sameinuðu þjóðirnar flokka sem ríki án sjálfsstjórnar.

Vestur-Sahara var undir stjórn Spánverja til 1975 en þeir hurfu á brott eftir þrýsting frá Sameinuðu þjóðunum. Þá tóku Marokkómenn og Máritanar við en Marokkó hafði gert tilkall til svæðisins allt frá árinu 1957. Átök á milli Polisario og Máritana og Marokkómanna brutust út. Þótt Máritanar hafi vikið árið 1979 hernámu Marokkómenn stærstan hluta Vestur-Sahara. Í dag halda Marokkómenn þessum hluta ennþá en Sahrawi-þjóðin, eða hið lýðræðislega lýðveldi Sahrawi-Araba, heldur minni hlutanum.

Alls viðurkenna 84 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sjálfstæði Vestur-Sahara. Fjörutíu ríki hafa hins vegar „fryst“ viðurkenningu sína. Ísland er ekki á meðal þeirra ríkja sem hafa viðurkennt sjálfstæði en fáein ár eru þó frá því Alþingi ályktaði að „fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og styðja viðleitni til að finna friðsamlega og varanlega pólitíska lausn.“

Vonast eftir samstöðu

Ghali segist vilja biðja Íslendinga um að sýna þjóð í erfiðri stöðu samstöðu. „Við eigum margt sameiginlegt og við vonumst til þess að koma á sterku sambandi á milli þessara þjóða til frambúðar.“

Að sögn Ghalis hefur Sahrawi-fólk lengi heyrt sögur af Íslandi. Hann heyrði til að mynda sjálfur af landinu þegar hann var í öðrum bekk grunnskóla. „Þið eruð fræg fyrir andspyrnu. Íslenska þjóðin hefur staðið vörð um sína stöðu á friðsamlegan hátt. Þið eruð þjóð sem styður smáríki og rétt þeirra til frelsis. Þess vegna kom ég hingað að heimsækja þetta vingjarnlega land og ég vonast til þess að þið séuð móttækileg fyrir skilaboðum mínum.“

Hitti forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með Ghali. Ghali segir að það hafi verið góður fundur. Hann hafi útskýrt stöðuna í Vestur-Sahara og sagt henni frá þjáningu þjóðarinnar og andspyrnunni.

„Ég sagði henni einnig að við vildum eiga gott samband við Ísland. Ég er afar þakklátur fyrir fundinn og vil þakka forsætisráðherranum fyrir að hlýða á skilaboð okkar. Við óskum henni alls hins besta og þjóðinni sömuleiðis,“ segir Ghali.

Áratugalöng barátta

Sjálfur hefur Ghali tekið virkan þátt í sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara til margra áratuga. Hann var til að mynda varnarmálaráðherra Sahrawi-lýðveldisins frá 1976 til 2005 og hefur nú verið forseti undan­farin þrjú ár.

Forsetinn segir að frá því Spánverjar eignuðu sér svæðið fyrst fyrir rúmum 130 árum hafi verið samfelld andspyrna af hálfu íbúa svæðisins. Þessi andspyrna hefur þó breyst með tíð og tíma. „Í dag höfum við okkar eigið ríki, þótt það sé hernumið að hluta. Við erum stofnaðili Afríkubandalagsins. Rúmlega áttatíu ríki viðurkenna sjálfstæði okkar og við vonum að fleiri bætist í hópinn. Stór hluti þjóðarinnar býr í útlegð en við búum yfir öllum þeim innviðum sem fullvalda ríki þarf að hafa,“ segir Ghali.

Næsta skref er að hans sögn að fá fulla viðurkenningu á sjálfstæði ríkisins. „Við erum komin afar nálægt markmiðinu og erum mun nær því nú að vera alviðurkennt sjálfstætt ríki en áður. Þetta er þrátt fyrir að hernámsaflið beiti sér gegn vinnu Sameinuðu þjóðanna og reyni að þvinga heiminn til þess að gangast við þeirra eigin heimssýn. Alþjóðasamfélagið þarf að beita sér af hörku gegn hernámsaflinu til þess að þvinga það til samstarfs.“

Ghali segir að það sé óumflýjanlegt að Sahrawi-þjóðin nái þessu markmiði sínu. Það sé einungis tímaspursmál. „Auðvitað er þetta líka spurning um samvisku heimsbyggðarinnar, hvenær hún áttar sig á þessu óréttlæti.“

Þá segir hann að það verði ekki aftur snúið nú. Þjóðin sé staðráðin og muni aldrei gefast upp.

Sakaður um þjóðarmorð

Þessi staðhæfing Ghalis er hins vegar ekki óumdeild. Amnesty International hefur til að mynda ályktað að Polisario standi, líkt og Marokkó, fyrir kúgun almennra borgara. Að auki opnuðu spænskir dómstólar árið 2016 á ný rannsókn á Ghali þar sem hann er meðal annars sakaður um þjóðarmorð, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu og pyntingar, samkvæmt fréttum meðal annars spænska miðilsins El País og breska ríkisútvarpsins.

Glæpirnir eiga að hafa átt sér stað í Tindouf-flóttamannabúðunum í Alsír. Þar hýsir Sahrawi-lýðveldið einna helst flóttamenn Sahrawi-þjóðarinnar. Marokkóum, Alsíringum og Sahrawi-fólki ber ekki saman um fjölda flóttafólks í búðunum en talan hleypur á tugum þúsunda.

Ég vil spyrja þig um rannsóknina á Spáni. Spænskir miðlar hafa greint frá því að þú sért rannsakaður fyrir meðal annars stríðsglæpi sem eiga að hafa átt sér stað á milli 1976 og 1987 í Tindouf-flóttamannabúðunum. Eru þessar ásakanir sannar?

„Þetta eru tilhæfulausar og rangar ásakanir,“ segir Ghali og bætir því við að ásakanirnar séu pólitísks eðlis. Andstæðingarnir í Marokkó séu sérfræðingar í því að ljúga upp á hann og aðra leiðtoga Polisario og Sahrawi-lýðveldisins. Ghali segir það orðið að gamalgrónum vana Marokkómanna að ljúga um Vestur-Sahara. „Þau eru sérfræðingar í skáldskap og lygum.“

Hörmuleg kúgun

„Ég vil að Íslendingar viti að vinir þeirra, Sahrawi-þjóðin, býr við hernám Marokkómanna. Við stöndum frammi fyrir hörmulegri bælingu, gegnumgangandi og kerfisbundinni kúgun af hálfu marokkóska hersins á okkar landi. Það er kerfisbundin undirokun. Það skiptir engu hvort um börn eða aldraða er að ræða. Það er ekki ein einasta Sahrawi-fjölskylda sem ekki hefur orðið fyrir þessari kúgun að einhverju leyti.“

Hann bætir því við að fjöldi almennra borgara sitji nú í fangelsi af pólitískum ástæðum. Ghali segir frá því að um þrjátíu þúsund Sahrawi-manna hafi sest að í búðum í eyðimörkinni fyrir utan höfuðborgina Laayoune, sem Marokkómenn halda, til þess að mótmæla hernáminu án þess að stofna til ófriðar innan borgarmarkanna.

„Þetta fólk stóð ekki fyrir neinum árásum eða ofbeldi en svo kom marokkóski herinn og eyðilagði búðirnar, handtók fólkið og fangelsaði marga. Fólkið var pyntað á margvíslegan hátt og er enn pyntað í dag. Þetta fólk fékk óréttláta dóma, allt frá tuttugu árum til lífstíðarfangelsis. Það fær ekki að fá heimsóknir frá fjölskyldu né að hafa samskipti við umheiminn.“

Ghali er þarna að tala um Gdeim Izik-búðirnar sem var komið upp í október 2010 og stóðu í um mánuð. Að sögn marokkóskra yfirvalda var réttað yfir 25 mótmælendum og segja þarlend yfirvöld að 11 marokkóskir öryggisgæslumenn hafi farist og tveir mótmælendur. Polisario segir hins vegar að 36 Sahrawi-menn hafi farist og 163 verið handteknir.

Auðlindarán og yfirráðasvæði

Ghali segir margt orsaka núverandi ástand. Í alþjóðlegu samhengi megi líta til stefnu Spánverja og einkum Frakka gagnvart Maghreb-svæðinu, sem nær yfir Alsír, Líbýu, Marokkó, Máritaníu, Túnis og Vestur-Sahara.

Ghali segir að stefnan litist af nýlenduhugmyndafræði. „Þar sem þetta er að mestu frönskumælandi svæði líta Frakkar á þetta sem sitt áhrifasvæði,“ segir Ghali.

Þá segir hann að Marokkó „haldi fast í þá kreddu“ að stækka þurfi ríkið. Marokkómenn vilji sömuleiðis eigna sér auðlindir Vestur-Sahara.

Framtíðarhorfur

Marokkómenn og Sahrawi-menn settust að viðræðuborðinu í desem­ber og svo aftur í mars undir handleiðslu Horst Köhler, fyrrverandi forseta Þýskalands og erindreka SÞ. Vert er að nefna að Sameinuðu þjóðirnar hafa í tæp þrjátíu ár starfrækt verkefni á svæðinu, MINURSO, sem á að tryggja aðstæður fyrir þjóðar­atkvæðagreiðslu Sahrawi-fólksins. Atkvæðagreiðslan hefur ekki enn farið fram.

Ghali lofar Köhler fyrir hans þátt í viðræðunum en segir Marokkó hindra starf SÞ og Sahrawi-leiðtoga. „En við vonum að okkar bíði árangursrík framtíð í þessum viðræðum.“

Að auki lýstu aðildarríki Þróunarbandalags sunnanverðrar Afríku, sem og nokkur ríki utan álfunnar, yfir eindregnum stuðningi við baráttu Sahrawi-fólksins í mars. Ghali segir mikinn árangur hafa náðst þar.

Þvinganir og viðskiptabönn

Ghali segir að lokum að til þess að leysa úr deilunni um Vestur-Sahara ætti Alþjóðasamfélagið að beita Marokkó meiri þrýstingi. Marokkó hlusti einfaldlega ekki á ályktanir um sjálfstæði Vestur-Sahara.

„Alþjóðasamfélagið ætti að beita Marokkó þvingunum og viðskiptabönnum vegna þess sem á sér stað. Þetta er það sama og gerðist undir aðskilnaðarstefnunni í Namibíu og Suður-Afríku. Þetta er kúgun, þjófnaður á auðlindum og mismunun. Við viljum að frjálsar lýðræðisþjóðir heims, óháð félagasamtök og almennir borgarar geri það sem þeir geta til þess að aðstoða okkur í því að endurheimta landið, auðlindir okkar og mannréttindi.“