Alls greindust þrettán innan­lands­smit síðast­liðinn sólar­hring og voru átta utan sótt­kvíar við greiningu. Þau fimm sem voru í sótt­kví við greiningu höfðu verið stutt í sótt­kví svo lík­legt er að þau hafi borið með sér smit.

Af þeim 13 sem greindust í gær tengjast að minnsta kosti 10 ein­staklingar leik­skólanum Jörfa við Hæða­garð í Reykja­vík að sögn Al­manna­varna. Allir starfs­menn og nem­endur eru nú í sótt­kví.

Alls er um að ræða um 130 ein­stak­linga en í leik­skólanum eru tæp­lega 100 börn og 33 starfs­menn. Sam­kvæmt upp­lýsingum al­manna­varna var starf­semi leik­skólans innan gildandi sótt­varna­reglna.

Heimilisfólk allt saman í sóttkví

„Sam­kvæmt ný­legum leið­beiningum um heima­sótt­kví þurfa allir sem dvelja á sama heimili að vera í sótt­kví og því má búast við að mjög margir verði í sótt­kví þessu tengt næstu daga,“ segir Hjör­dís Guð­munds­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Al­manna­varna, í til­kynningu.

„Í dag verður öllum börnum, for­eldrum og starfs­mönnum boðið að fara í skimun og verður sér­stakur val­hnappur settur á heilsu­vera.is síðar í dag.“

Sótt­varna­læknir og al­manna­varnir hvetja alla þá sem hafa um­gengist starfs­menn eða börn á leik­skólanum Jörfa síðustu viku að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem full­orðna. „Einnig hvetjum við íbúa sem búa í næsta ná­grenni leik­skólans að fara í skimum, á­stæðan er mikil sam­skipti á milli fólks og krakkarnir eðli­lega mikið að ferðinni.“