124 greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á vef covid.is. Af þeim sem greindust í gær voru 104 með einkenni en 20 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. 54 voru utan sóttkvíar við greiningu en ekki liggur fyrir hversu margir voru bólusettir.

Í heildina eru nú 1.169 í einangrun með virkt smit og fjölgar þeim örlítið milli daga. Í sóttkví eru nú 2.206 manns en þeim fækkar milli daga. Í heildina voru um 3.700 sýni tekin innanlands í gær.

Áfram er stöðugur fjöldi fólks að greinast með veiruna. Í fyrradag greindust 103 með veiruna innanlands en af þeim voru 55 utan sóttkvíar við greiningu. 53 voru bólusettir. Um helgina greindust í heildina rúmlega 200 smit þar sem meirihluti var utan sóttkvíar við greiningu og flestir voru bólusettir.

Einn greindist með veiruna á landamærunum þar sem rúmlega þúsund sýni voru tekin, töluvert fleiri en fyrri daga, og eru nú 1.055 í skimunarsóttkví.

Á Landspítala eru nú 25 inniliggjandi en þeir voru 27 í gær. Fimm eru nú á gjörgæslu, og fækkar þar með um einn.

Innlögnum virðist fækka

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala í gær voru þá sex á gjörgæslu vegna Covid-19, þar af fimm bólusettir, og af þeim þurftu fimm á stuðning öndunarvélar að halda, þar af fjórir bólusettir. Meðalaldur innlagðra á Landspítala í gær var 65 ár og var um þriðjungur bólusettur.

Spítalinn starfar nú á hættustigi og er mikið álag á öllum deildum, sérstaklega á gjörgæslu. Heilbrigðisráðherra greindi frá því í vikunni að leitað væri leiða með einkaaðilum til að manna vaktir á gjörgæsludeildum auk þess sem heilbrigðisstofnanir víða um land hafa boðist til að taka við sjúklingum.

Páll Matthías­­son, for­­stjóri Land­­spítalans, og Már Kristjáns­­son, yfir­­­læknir og for­­maður far­­sóttar­­nefndar, skiluðu minnis­blaði til heil­brigðis­ráð­herra í gær um stöðu mála á Land­­spítalanum í fjórðu bylgju far­aldursins. Már sagði góðu fréttirnar þær að innlögnum væri að fækka í samræmi við þeirra spár.

Bólusett af fullum krafti í Höllinni

Bólusetningar fara nú fram í Laugardalshöll þar sem þeir sem fengu bóluefni Janssen í haust og í sumar fá örvunarskammt, ýmist með bóluefni Moderna eða bóluefni Pfizer. Ríflega 6.300 manns mættu í bólusetningu á mánudag þar sem bólusett var með Moderna og svipaður fjöldi í gær.

Á morgun, fimmtudaginn 19. ágúst, verður síðan boðið upp á örvunarskammt eða þriðja skammt fyrir einstaklinga fædda 1931 eða fyrr en þeir einstaklingar voru bólusettir, flestir með Pfizer, í janúar eða febrúar.

Í næstu viku verða síðan börn á aldrinum 12 til 15 ára bólusett hér á landi með bóluefni Pfizer. Bólusett verður á mánudegi og þriðjudegi en ekki verða send út boð fyrir þá bólusetningu heldur verður forráðamönnum gert að mæta með börnin sín á ákveðnum tímum, eftir því hvenær þau eru fædd.

Fréttin hefur verið uppfærð.