Alls hafa 122 kórónaveirusmit verið rakin til hópsýkingarinnar sem uppgötvaðist á Landakoti fyrir helgi.

Þar af eru 60 tilfelli meðal sjúklinga og 62 meðal starfsmanna. Hafa fimm smit bæst við frá því í gær.

„Eins og búast mátti við greinast enn smit hjá starfsfólki og sjúklingum sem voru útsettir á Landakoti fyrir COVID19. Ekkert nýtt smit hefur greinst utan hins skilgreinda útsetta hóps starfsmanna og sjúklinga,“ segir í tilkynningu frá Landspítala.

Fram kom á upplýsingafundi í dag að til standi að skima starfsfólk spítalans í auknum mæli í kjölfar hópsmitsins.

Rekja má smit 22 sjúklinga utan Landakots til hópsýkingarinnar

43 starfsmenn á Landakoti hafa greinst með COVID-19 og 38 sjúklingar. Þá hafa sex starfsmenn greinst á Reykjalundi auk fimm sjúklinga og tíu starfsmenn á Sólvöllum auk sextán sjúklinga. Þar að auki má rekja smit fjögurra annarra til hópsýkingarinnar.

62 sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítala vegna COVID-19. Þar af eru tveir á gjörgæsludeild og einn í öndunarvél.

Alls hafa 125 verið lagðir inn á spítalann vegna COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins.

Þrír einstaklingar hafa látið lífið á Landspítala sökum sjúkdómsins í þessari bylgju. Var minnst einn þeirra sjúklingur á Landakoti.

Fréttin hefur verið uppfærð.