Yfir 20.000 manns hafa nú látið lífið af sökum kórónuveirunnar í Brasilíu. Síðastliðinn sólarhring létust 1.200 einstaklingar af völdum hennar og hafa aldrei verið fleiri.

Fjöldi greindra smita er kominn yfir 300.000 í landinu og er landið nú í þriðja sæti yfir flest smit í heiminum.

Lítil skimun í landinu er sögð gefa ástæðu til að óttast að tölurnar gefi mjög óraunsæja mynd af umfangi faraldursins og er reiknað með því að staðan eigi þar eftir að versna enn frekar.

Fyrsta staðfesta tilfelli COVID-19 í Brasilíu var þann 26. febrúar síðastliðinn. Sérfæðingar telja að faraldurinn hafi þó verið kominn til landsins strax í janúar og vara við því að enn kunni að líða nokkrar vikur áður en hámarkinu verður náð.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur ítrekað gert lítið úr heimsfaraldrinum og meðal annars hvatt fólk til þess að hundsa tilmæli stjórnvalda um sóttkví og samkomubann. Bolsonaro rak nýlega heilbrigðisráðherra landsins eftir að hann talaði fyrir hörðum samkomutakmörkunum.