Tólf greindust með innanlandssmit síðastliðinn sólarhring og voru allir í sóttkví við greiningu. Um er að ræða fækkun nýrra tilfella frá því í gær þegar greint var frá fjórtán smitum. Möguleiki er að minni sýnataka í gær skýri að hluta til mismuninn.

212 einstaklingar eru nú í einangrun með virkt smit hér á landi. Líkt og í gær eru 38 sjúklingar innlagðir á sjúkrahús vegna COVID-19, samkvæmt upplýsingum á Covid.is. Þar af eru tveir áfram á gjörgæslu.

Sagði næstu daga vera mikilvæga

Fimm farþegar greindust með COVID-19 við landamæraskimun síðastliðinn sólarhring. Tveir þeirra reyndust vera með virkt smit en þrír bíða niðurstöðu mótefnamælingar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í gær að það væri jákvætt að þeim hafi fækkað síðustu daga sem greinist utan sóttkvíar. Þá sagði hann að næstu dagar myndu leiða í ljós hvort faraldurinn sé aftur kominn í rénun hér á landi.

Fjölgar í sóttkví

679 einstaklingar eru í sóttkví hér á landi og fjölgar um níu milli daga. 904 eru í skimunarsóttkví. Síðast voru allir í sóttkví við greiningu þann 21. nóvember þegar fimm tilfelli greindust.

868 innanlandssýni voru greind síðastliðinn sólarhring, nokkuð færri en daginn áður þegar 1.318 innanlandssýni voru tekin. 339 sýni voru nú tekin vegna landamæraskimunar.

Nýgengi innanlandssýna síðustu fjórtán daga heldur áfram að hækka og mælist nú 45,8 á hverja 100 þúsund íbúa.

Fréttin hefur verið uppfærð.