1.193 börn bíða eftir sálfræðigreiningu eða meðferð í opinbera heilbrigðiskerfinu. Þar af bíða níu börn eftir innlögn á legudeild Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og 107 börn á göngudeild BUGL eftir greiningu og meðferð.

Lengstur er biðlistinn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar þar sem 584 börn bíða eftir þjónustu. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðmund Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins. Þá segir að 87% innlagna á legudeild BUGL á þessu ári hafi verið bráðainnlagnir sem gerist samdægurs. Meðalbiðtími eftir göngudeildarþjónustu BUGL er nú um sjö og hálfur mánuður.

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) bíða samtals tíu börn og ungmenni eftir greiningu og meðferð hjá Barna- og unglingageðteymi SAk. Til viðbótar á eftir að taka fyrir mál ellefu annarra barna og ungmenna sem hafa ekki hlotið afgreiðslu.

313 á biðlista utan höfuðborgarsvæðisins

159 börn bíða eftir greiningu og meðferð hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Auk þess bíða á sjötta hundrað eftir sérhæfðri þverfaglegri greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar eins og áður segir. Er slík greining framkvæmd eftir að frumgreining eða skimun hefur sýnt sterkar vísbendingar um geðheilbrigðisvanda svo sem ADHD, kvíða og annan tilfinningavanda, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda auk námserfiðleika.

Þá kemur fram í svari heilbrigðisráðherra að 132 börn séu á biðlista eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 95 hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, sjö hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, fjórtán á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 32 hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og 33 börn á bið hjá forvarnar- og meðferðarteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Ekki er hægt að útiloka að einhver börn bíði eftir þjónustu á fleiri en einum stað í heilbrigðiskerfinu og getur það skekkt heildartöluna í upphafi.