Alls hafa 60 skjólstæðingar Landakots, Reykjalundar og Sólvalla á Eyrarbakka greinst með Covid-19 í kjölfar hópsýkingar á Landakoti. Þá hafa 57 starfsmenn greinst. Samtals eru því 117 smit rakin til hópsýkingarinnar á Landakoti.

Í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala segir að eins og búast mátti við greinist enn smit hjá starfsfólki og sjúklingum sem voru útsettir fyrir Covid-10 á Landakoti. Þá segir að ekkert smit hafi greinst utan hins skilgreinda útsetta hóps starfsmanna og sjúklinga.

Á Landakoti hafa alls 40 starfsmenn og 28 sjúklingar smitast, á Reykjalundi 6 starfsmenn og 5 sjúklingar, þá hafa 10 starfsmenn og 16 sjúklingar greinst á Sólvöllum og 1 starfsmaður og 1 sjúklingur á öðrum deildum spítalans.

Talið er líklegt að starfsfólk hafi borið kórónuveiruna inn á Landakot í kringum 12. október.

Þörf á heilbrigðisstarfsfólki

Fagleg þjónusta hefur verið styrkt síðustu daga, sérstaklega á Landakoti hvað varðar lækningar, hjúkrun og rannsóknargetu. Sjúklingar verða fluttir á aðrar deildir Landspítala ef þörf krefur. Þá er enn er þörf á fleira heilbrigðisstarfsfólki til aðstoðar, einkum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

Einn einstaklingur lést úr Covid-19 hér á landi síðast­liðinn sólar­hring en hann var sjúklingur á Landakoti.

Aldrei jafn margir á sjúkrahúsi

Landspítalinn starfar nú á neyðarstigi og virðist ekkert lát vera á innlögnum. 123 sjúklingar hafa nú verið lagðir inn á spítalann vegna COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins. Alls eru nú 61 sjúklingur inniliggjandi vegna Covid-19 á Landspítalanum en í morgun voru þeir 58. Tveir eru á gjörgæslu og einn í öndunarvél.

1.086 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 193 börn. 57 starfsmenn eru smitaðir af veirunni og í einangrun og 279 eru í sóttkví.

Í gær greindust alls 86 ný smit og en svo mörg smit hafa ekki greinst hér á landi síðan 13. október.