Reykjavíkurborg horfir fram á 11,3 milljarða króna halla á næsta ári. Meirihlutinn mælti fyrir fjárhagsáætlun næsta árs á fundi borgarstjórnar í dag. Samhliða því verður kynnt viðbragðsáætlun borgarinnar gegn kórónuveirufaraldrinum, Græna planið.

Hyggst borgin nýta sterka stöðu sína og lágt skuldahlutfall til að mæta efnahagsáfallinu sem kórónuveirufaraldurinn hefur skapað. Fram kom á fundi oddvita meirihlutans með blaðamönnum nú eftir hádegi að fjárfest verði fyrir 28 milljarða á næsta ári. Með hvatningu til fyrirtækja borgarinnar verði svo ráðist í fjárfestingar upp á 175 milljarða króna næstu þrjú árin. Fjárfestingar borgarinnar verða fjármagnaðar með lántökum, er gert ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður frá árinu 2025.