Um 1.100 tóku þátt í próf­kjöri Fram­sóknar­flokksins í Suður­kjör­dæmi í gær en það eru um 35 prósent fé­lags­manna. Greint er frá þessu á vef sunn­lenska.

Þar kemur fram að talning at­kvæða hafi hafist klukkan níu í dag og að úr­slit verði kynnt klukkan 17 á Hótel Sel­foss.

Sigurður Ingi Jóhanns­son, for­maður flokksins, var einn um fyrsta sætið í próf­kjörinu en tekist var á um annað sætið. Það voru þau Silja Dögg Gunnars­dóttir, nú­verandi þing­maður flokksins, og Jóhann Frið­rik Frið­riks­son, odd­viti Fram­sóknar í Reykja­nes­bæ.

Auk þeirra voru fimm önnur í framboði:

  • Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 2.- 4. sæti
  • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg – sækist eftir 3. sæti
  • Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjum – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Vík í Mýrdal – sækist eftir 3.- 5. sæti
Mynd/Framsókn