Hin 70 metra langa risa­snekkja, Horizons III, liggur nú við Reykja­víkur­höfn en snekkjan hefur verið á ferð um Ís­lands­strendur síðustu vikur. Hún hefur verið að sigla meðal annars um Hval­fjörð og Grundar­tanga síðustu daga en kom síðan til hafnar í Reykja­vík.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá er­lendum miðlum keypti John Ty­son, hlut­hafi og fyrrum for­stjóri Ty­son Foods, snekkjuna árið 2019 fyrir 80 milljónir Banda­ríkja­dali sem sam­svarar rúm­lega 11 milljörðum króna. Snekkjan bar áður nafnið Martha Ann. Snekkjan rúmar 18 gesti í 7 káetum og fylgir henni 22 manna á­höfn.

Í snekkjunni er stór sund­laug, bíó­salur og líkams­ræktar­salur. Hægt er að leigja snekkjuna en vikan kostar um 97 milljónir króna. Ekki er vitað hver er um borð eða hvort Ty­son sjálfur sé á ferð.

Mun þetta ekki vera eina risa­snekkjan sem hefur heim­sótt Ís­lands­strendur á síðustu dögum en J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna, hefur verið á ferð um landið í snekkjunni Ca­lyp­so.

Allir farþegar skimaðir


Sam­­kvæmt Land­helgis­­gæslunni eru allir sem koma til landsins á snekkjum skimaðir. Meðan beðið var eftir niður­stöðum úr sýna­töku þurftu allir að vera í sótt­kví á snekkjunni

„Á­höfnum skipa og báta sem koma frá út­löndum til Ís­lands ber að senda Land­helgis­­gæslunni sér­­stakt eyðu­blað sem getur gefið upp­­­lýsingar um CO­VID-19 smit auk hefð­bundinnar komu­til­­kynningar. Skipum er ekki hleypt til hafnar nema eyðu­blaðið berist Land­helgis­­gæslunni,“ segir í upp­­­lýsingum frá Land­helgis­­gæslunni.

Skipum er heimilt að velja um þrettán mis­munandi hafnir víðs vegar um Ís­land til að fara í sýna­töku.

Fram­­kvæmd sýna­tökunnar er í höndum heilsu­­gæslu hvers staðar. Land­helgis­­gæslan og Toll­­gæslan fá upp­­­lýsingar um hverjir eru í á­höfn skipanna með komu­til­­kynningum þeirra. Hefð­bundið landa­­mæra­­eftir­­lit Toll­­gæslunnar fer svo fram þegar far­þegar fara frá borði.