Alls greindust 66 með CO­VID-19 kóróna­veiruna hér á landi síðast­liðinn sólar­hring og eru því stað­fest smit orðin 1086. Þetta kemur fram í nýjustu tölum sem birtar voru á vef land­læknis­em­bættisins og al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra.

Um er að ræða fleiri stað­fest smit en í gær þegar 54 ein­staklingar greindust með veiruna.

Á þriðja tug á spítala.

25 liggja nú inni á Land­spítalanum vegna sjúk­dómsins, þar af eru níu á gjör­gæslu. Sjö voru al­var­lega haldin í öndunar­vél í gær­kvöldi.

All eru 945 manns í ein­angrun og sæta 9.236 sótt­kví. Þá hafa 139 náð sér eftir að hafa smitast af sjúk­dómnum.

Fjölgar úti á landi

CO­VID-19 veiran hefur nú greinst í öllum lands­hlutum og fjölgar smitum milli daga úti á landi. Í gær greindist fyrsta smitið á norðan­verðum Vest­fjörðum en hingað til hafa smitaðir Vest­­­firðingar ekki verið heima hjá sér þegar smit hefur greinst.

Þá hafa alls 23 smitast á Akur­eyri og þar af voru tveir lagðir inn á sjúkra­hús. Þeir hafa báðir verið út­skrifaðir.