Í gær greindust 103 einstaklingar með kórónaveiruna innanlands en þetta kemur fram á covid.is. Fjöldi einstaklinga í einangrun fækkar þó örlítið milli daga en nú eru 1.165 í einangrun með virkt smit. Alls eru nú 2.244 í sóttkví en þeim fjölgar um rúmlega 250 milli daga.

Af þeim sem greindust í gær voru 89 með einkenni en 14 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. 55 af þeim sem greindust í gær voru utan sóttkvíar við greiningu. Ekki liggur fyrir hversu margir af þeim sem greindust voru bólusettir.

Rúmlega 3.300 sýni voru tekin innanlands í gær, þar af tæplega 2.200 við einkennasýnatöku, tæplega 850 við sóttkvíar- og handahófsskimun, og tæplega 280 hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Á landamærunum greindist eitt smit en beðið er mótefnamælingar til að sjá hvort um virkt smit sé að ræða. Niðurstaða úr mótefnamælingu smits sem greindist á sunnudag liggur nú fyrir og var þar um virkt smit að ræða. Ríflega 310 sýni voru tekin á landamærunum í gær og eru nú 927 í skimunarsóttkví.

Sex á gjörgæslu

Fjöldi þeirra sem eru inniliggjandi á spítala helst sá sami milli daga en ekki liggur fyrir hvort einhverjir hafi útskrifast eða lagst inn. 30 eru nú inniliggjandi, þar af sex á gjörgæslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala frá því í gær voru sex á gjörgæslu, þar af fjórir bólusettir, en þrír á gjörgæslu þurftu þá öndunarvélastuðning. Spítalinn starfar nú á hættustigi en mikið álag er á öllum deildum spítalans, sérstaklega á gjörgæslu.

Enn margir að greinast

Í heildina greindust rúmlega 200 smit um helgina, þar af 82 á föstudag, 64 á laugardag, og 55 á sunnudag, og voru flestir þar utan sóttkvíar við greiningu, eða 113 alls. 126 af þeim sem greindust voru fullbólusettir.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn greindi frá því í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að enn væru mörg smit að greinast en þar sem færri smit greindust um helgina var hægt að nýta þann tíma til að vinna upp smitrakningu.

Leita til einkaaðila til að manna gjörgæslu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því á Hringbraut í gær að verið væri að leita leiða með einka­aðilum til að manna vaktir á gjör­gæslu­deildum, bæði til að bæta mönnun og til að bæta við fólki sem er ekki þreytt.

„Þetta eru aðilar sem eru að reka heil­brigðis­þjónustu úti í bæ en hafa tekið því vel þegar við höfum leitað eftir því að þau geti ljáð okkur lið, eða lagt okkur lið öllu heldur. Bæði læknar og hjúkrunar­fræðingar og fjöl­breyttara starfs­fólk, sem er að hjálpa okkur að manna þessar deildir sem að mæðir mest á,“ sagði Svan­dís.

Fréttin hefur verið uppfærð.