Mildred Geraldine Schappals, 102 ára banda­rísk kona, hefur heldur betur lifað tímana tvenna. Geraldine, sem er yfir­leitt kölluð Gerri, jafnaði sig á CO­VID-19 ekki alls fyrir löngu en svo vill til að hún sigraðist einnig á spænsku veikinni sem barn.

Fjallað var um þetta á vef USA Today um helgina.

Gerri, sem er bú­sett á hjúkrunar­heimili í Nas­hua í New Hamps­hire, greindist með CO­VID-19 í maí síðast­liðnum. Sem betur fer veiktist hún ekki al­var­lega og er stál­slegin í dag.

Í frétt USA Today kemur fram að hún hafi fæðst þann 18. janúar árið 1918. Í nóvember það ár fékk hún flensu rétt eins og bróðir hennar og móðir. Gerri var al­var­lega veik og um tíma var óttast um líf hennar. Hún braggaðist sem betur fer og náði sér loks af inflúensunni sem reyndist vera spænska veikin.

Í við­tali við USA Today segir dóttir hennar, Juli­a Schappals, að móðir hennar hafi sigrast á brjósta­krabba­meini á níunda ára­tugnum og ristil­krabba­meini um miðjan tíunda ára­tuginn. Segist hún ekki muna til þess að móðir hennar hafi fengið kvef eða flensu, senni­lega sé ó­næmis­kerfi hennar býsna öflugt.

Talið er að spænska veikin hafi dregið 675 þúsund Banda­ríkja­menn til dauða í far­aldrinum sem gekk yfir heiminn árin 1918-1919. CO­VID-19 hefur dregið rétt tæp­lega 200 þúsund Banda­ríkja­menn til dauða.