Helga Guðmundsdóttir, íbúi í Bolungarvík, er meðal elstu manna sem sigrast hefur á COVID-19 í heiminum. Hún verður 103 ára eftir nokkra daga.

Agnar H. Gunnarsson, bóndi á Miklabæ í Skagafirði og sonur Helgu, segir móður sína hafa sigrast á ýmsu í gegnum tíðina og segir hana í fínu formi miðað við aldur.

„Hún hefur til dæmis tvisvar sinnum fengið berkla svo hún er vön að sigrast á hinum ýmsu vandræðum,“ segir Agnar.

Spænska veikin á heimili Helgu

Helga fæddist á Blesastöðum á Skeiðum árið 1917, ári áður en spænska veikin gekk hér yfir. „Spænska veikin var á heimilinu þar sem mamma bjó en þá var hún eins árs gömul og segist ekkert muna eftir því,“ segir Agnar og hlær.

Helga veiktist af COVID-19 5. apríl síðastliðin og var útskrifuð úr einangrun á síðasta laugardag. Ósk Gunnarsdóttir, dóttir Helgu, segir að móðir hennar hafi verði mikið veik en sé öll að koma til.

Jákvæðnin skiptir sköpum

Agnar og Ósk eru sammála um að lundarfar móður þeirra eigi þátt í háum aldri hennar en Helga er afar jákvæð. „Mamma er óeigingjarnasta manneskja sem ég þekki,“ segir Ósk og Agnar tekur undir.

„Hún er einstaklega jákvæð og hefur aldrei verið með neina svartsýni,“ segir Agnar. „Svo er hún auðvitað Skeiðamaður. Þau voru sextán systkinin og náðu flest háum aldri, þau voru alin upp við að syngja mikið og borða hrossakjöt þegar þau voru ung, ég held að það sé nú líka gott fyrir mann,“ bæti hann við og hlær.

103 ára eftir nokkra daga

Þá hefur Helga aldrei reykt né drukkið og alltaf gengið mikið. Hún fagnar 103 ára afmæli sínu þann 17. maí næstkomandi og vonast Ósk og Agnar til þess að mamma þeirra geti gert sér dagamun á afmælinu.

„Annars hefur hún aldrei verið mikið fyrir afmælisdaga og hefur alltaf fundist hún vera of gömul. Hún hefur aldrei haft áhuga á því að vera gömul þess vegna verður hún sennilega svona gömul,“ segir Agnar og hlær.