102 ára gömul kona er grunuð um að hafa myrt 92 ára gamlan nágranna sinn á elliheimili í Frakklandi. BBC greindi frá þessu í dag.

Konan hefur nú verið færð á geðsjúkrahús en hún sagði við starfsfólk elliheimilisins að hún hefði orðið einhverjum að bana. Fórnarlambið er kona sem einnig var vistuð á elliheimilinu en hún fannst látin í rúmi sínu með mikla áverka á andliti.

Krufning leiddi í ljós að konan var kyrkt og lamin ítrekað í höfuðið. Hún fannst látin rétt eftir miðnætti síðasta laugardag.

102 ára gamla konan sem grunuð er um morðið var sögð hafa verið í uppnámi og afar ringluð eftir að líkið fannst og játaði að hafa orðið einhverjum að bana. Hún gengst nú undir geðmat til að ákvarða hvað gert verði í framhaldinu og hvort hún hafi verið í einhvers konar geðrofsástandi þegar hún framdi verknaðinn.