Ein kona á sjötugsaldri var flutt með lítils háttar áverka á sjúkrahús eftir að svínaflutningabíll valt yfir bíl hennar á þjóðvegi í suðurhluta Sjálands í Danmörku. Konan sat föst í bílnum í nokkrar klukkustundir áður en viðbragðsaðilar gátu náð henni út úr bílnum. Fjallað er um þetta í dönskum fjölmiðlum.

Umferðarslysið varð við Munke Bergby akbrautina, norðan við bæinn Sórey og Sóreyjarvatn.

Rúmlega hundrað svín voru um borð í flutningabílnum en að sögn lögreglu drápust sex svín í bílveltunni. Samtals 101 svín slapp út úr flutningabílnum og flúði vettvang. Viðbragðsaðilar eyddu nokkrum klukkustundum í að leita að dýrunum og voru nokkrir dýralæknar kallaðir til svo hægt væri að meta ástand dýranna.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suður-Sjálandi. Ekki er vitað hvað varð til þess að flutningabíllinn valt.

Að sögn lögreglu lauk rannsókn á vettvang fyrir hádegisbil í dag og er búið að opna fyrir umferð.