Frá og með deg­in­um í dag mega 100 manns koma sam­an í Danmörku miðað við gild­andi sam­komu­bann og gild­ir sá há­marks­fjöldi til 8. ágúst að óbreyttu. Þá verða reglurnar endurskoðaðar og mögulega rýmkaðar þannig að 200 megi koma saman.

Frá 8. júni máttu 50 manns koma sam­an.

Um fjórir mánuðir eru síðan fyrsta sam­komu­bannið vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar tók gildi þar í landi en þá máttu tíu koma saman.

Skynsamlegt að leyfa fleirum að koma saman

Lars Østergaard, yfirlæknir á Skejby sjúkrahúsinu og prófessor við Árósaháskóla, segir í samtali við danska ríkisútvarpið DR, að vel hafi tekist að ná stjórn á kórónuveirunni í Danmörku.

„Eins og staðan er í dag þá eru mjög fá smit að greinast og fá virk smit í landinu, því tel ég það vera skynsamlegt skref að opna frekar á samfélagið," segir Østergaard.

Hann segir jafnframt að veiran sé enn í samfélaginu og nú þegar fleiri mega koma saman sé mikilvægt að halda góðri fjarlægð og passa upp á eigin sóttvarnir.

Alls hafa 13.079 smit kórónuveirunnar greinst í Danmörku og 607 látið lífið.

Um miðjan júní höfðu 836 sektir verið gefnar fyrir brot á samkomubanni þar í landi.