Tveir starfs­menn hjá matvælafyrir­tækinu Ís­lenskt sjávar­fang eru smitaðir af CO­VID-19. Það stað­festir fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækisins, Rúnar Björg­vins­son, í sam­tali við Frétta­blaðið. Áður hefur verið greint frá því í dag að 100 starfs­menn fyrir­tækisins þurfi að fara í skimun vegna smitanna.

Rúnar segir að hann hafi ekki heyrt af fleiri smitum í dag en að þau viti ekki fyrr en á morgun hvort fleiri hafi smitast en þá verða allir skimaðir.

„Til að fá það á hreint hvort það séu fleiri sem eru smitaðir. Að okkur vitandi hafa ekki fleiri greinst,“ segir Rúnar.

Á heima­síðu fyrir­tækisins kemur fram að hjá fyrir­tækinu starfi 100 starfs­menn. Aðal­vinnsla fyrir­tækisins er í Kópa­vogi niður við smá­báta­höfnina yst á Kárs­nesinu.

„Þetta er tals­vert högg,“ segir Rúnar en hann segir að það séu strangar sótt­varnir hjá fyrir­tækinu og segir að ekki þurfi að hafa á­hyggjur af mat­vinnslunni.

Smit í leikskóla og skóla

Fyrr í dag hefur verið greint frá því að smit hafi greinst hjá starfsfólki á leikskólanum Jörfa í Bústaðahverfi og hjá nemenda í Sæmundarskóla í Grafarholti. Talsverður fjöldi verður skimaður á morgun vegna smitanna.