Þorvarður Pálsson
Mánudagur 25. janúar 2021
17.30 GMT

Í dag er ára­tugur liðinn frá því að mót­­mæli hófust á Tahrir-torgi í Kaí­ró í Egypta­landi sem mörkuðu upp­haf byltingar þar í landi. Þau voru hluti af því sem kallað hefur verið arabíska vorið og bundu margir, bæði í Mið­austur­löndum og utan þeirra, vonir við að at­burðirnir mörkuðu upp­­haf nýrra tíma í stjórn­­málum þar.

Mót­­mælin í Kaíró voru þó ekki byrjun arabíska vorsins. Í desember 2010 kveikti Tún­is­búinn Mohamed Bou­azizi í sér eftir að lög­regla gerði upp­tækan varning sem hann var með til sölu. Hann lést tæpum mánuði síðar. Þetta kom af stað mót­­mæla­öldu í heima­landi hans sem endaði með því að for­­seti landsins, Zine El Abidine Ben Ali, sagði af sér 14. janúar 2011 eftir tæp 24 ár í em­bætti. Í­búar landsins voru lang­­þreyttir á miklu at­vinnu­­leysi, spillingu, skorti á tjáningar­­frelsi og háu mat­væla­verði.

Frá mótmælum á Tahrir-torgi í febrúar árið 2011.
Fréttablaðið/EPA

Í upp­hafi árs 2011 sat hinn aldraði Hosni Mubarak í for­seta­stóli í Egypta­landi. Hann hafði þá verið við völd síðan 1981 og stjórnað með harðri hendi. Öll and­staða við stjórn hans var bönnuð, tjáningar­frelsi skert mjög og gekk leyni­lög­regla landsins hart fram gegn öllum þeim sem talið var að gætu ógnað stjórn forsetans. Eftir at­burðina í Túnis efldust and­stæðingar Mubarak mjög og þann 25. janúar 2011 á­kvað hópur Egypta að fara út á Tahrir-torg höfuð­borgarinnar Kaíró og krefjast af­sagnar forsetans og stjórnar hans.

Mótmælandi rífur niður veggspjald af Hosni Mubarak árið 2011.
Fréttablaðið/EPA

Ýmsir hópar and­stæðinga forsetans komu sér saman um að hefja að­gerðir sínar þennan daginn. Mark­miðið var að fá nógu marga út á göturnar til að öryggis­lög­reglan og herinn gæti ekki brotið mót­mælin á bak aftur með valdi en þar kom tæknin mjög við sögu. Sam­fé­lags­miðlar voru að festa sig í sessi Mið­austur­lönd líkt og annars staðar. Þeir auð­velduðu mjög and­stæðingum for­setans að stilla saman strengi sína og vekja at­hygli heims­byggðarinnar á að­gerðum sínum.

Við tóku meira en tvær vikur af mót­mælum sem teygðu anga sína út fyrir höfuð­borgina. Talið er að meira en tvær milljónir Egypta hafi tekið þátt í þeim og mörg hundruð féllu er lög­regla og her landsins reyndu að stöðva mót­mælin. Fór svo á endanum að Mubarak var steypt af stóli og herinn tók við völdum. Forsvarsmenn hans lofuðu þingkosningum sem fram fóru í nóvember og lauk í janúar 2012. Þar bar kosninga­banda­lag undir stjórn Mohamed Morsi sigur úr bítum en hann til­heyrði samtökunum Bræðra­lagi múslima sem bönnuð voru á valda­tíma Mubarak.

Mohamed Morsi sat rúmt ár í forsetastól í Egyptalandi. Hann lést í haldi egypskra stjórnvalda árið 2019.
Fréttablaðið/Getty

Morsi bauð sig svo fram til for­­seta síðar sama ár, sigraði for­seta­kosningarnar og tók við em­bætti for­­seta í lok júní 2012. Hann gegndi em­bætti í rúmt ár uns honum var steypt af stóli í valda­ráni hersins í júlí 2013, eftir mót­­mæli gegn stjórn hans. Þá tók hers­höfðinginn Abdel Fattah el-Sisi við völdum í landinu og hóf sam­­stundis að hand­­taka með­limi Bræðra­lags múslima og síðar aðra sem and­­snúnir voru valda­ráninu. Í ágúst sama ár myrti lög­regla hundruð ó­­breyttra borgara í Kaíró er þeir mót­­mæltu valda­ráninu.

Abdel Fattah el-Sisi og Boris Johson, forsætisráðherra Bretlands, árið 2019.
Fréttablaðið/EPA

Í for­seta­kosningum í maí 2014 hlaut el-Sisi 97 prósent at­kvæða og gegnir hann enn em­bætti. Á­standið í Egypta­landi er því að mörgu leyti hið sama og áður en mót­mælin hófust. Vonir um lýðræði fjöruðu út í Egypta­landi líkt og víðast hvar annars staðar í Mið­austur­löndum, til dæmis í Sýr­landi, Líbíu og Jemen. Þar standa enn yfir blóðugar borgara­styrj­aldir sem ekki sér fyrir endann á. Sam­einuðu þjóðirnar telja að um sex og hálf milljón Sýr­lendinga hafi flúið landið og svipaður fjöldi sé á ver­gangi innan landsins.

Í flestum þeim ríkjum þar sem fólk fór á götur út og mót­mælti harð­ræði yfir­valda hafa ein­ræðis­herrar hert tökin og barið niður hvers kyns and­stöðu með valdi. Einungis í Túnis, þar sem arabíska vorið hófst, tók lýð­ræðis­legra stjórnar­far við. Margir stjórn­mála­skýr­endur hafa lýst því á­standi sem tók við af arabíska vorinu sem hinum arabíska vetri.

Börn á flótta í Sýrlandi.
Mynd/UNICEF
Athugasemdir