Ekki hafa verið staðfest fleiri mislingasmit á Íslandi, en töluverður fjöldi einstaklinga eru í heimasóttkví undir eftirliti heilsugæslunnar. 

Í því felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu að mestu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að 21 degi. Viðkomandi má alls ekki umgangast þá sem ekki hafa verið bólusettir fyrir mislingum eða fengið mislinga.

Alls hafa síðustu sex daga 3.025 einstaklingar verið bólusettir á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir mislingum. Þar af eru 856 börn undir eins árs, 759 börn sem eru eins árs og 97 börn á aldrinum 2 til 18 ára. Þá hafa 1.313 fullorðnir einstaklingar verið bólusettir. Fram kemur á heimasíðu heilsugæslunnar að um mikinn mun sé að ræða frá hefðbundinni starfsemi í bólusetningu. Í venjulegri viku þegar MMR bólusetningar eru bara í ungbarnavernd, er fjöldinn oft um 80.

Von á meira bóluefni

Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu embættis landlæknis að von sé á meira bóluefni til landsins um miðja viku. Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun var farið yfir stöðu mála og drög að bólusetningaráætlun fyrir allt landið lögð fram. Síðar í vikunni má gera ráð fyrir því að leiðbeiningar verði gefnar út um fyrirkomulag bólusetningar.

Sóttvarnalæknir ítrekar í tilkynningu að mislingar eru bráðsmitandi, smitið er bæði loftborið og berst einnig með snertingu. Þar segir enn fremur að áfram verði fylgst með stöðu mála. Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli heilsugæslunnar, heilsuveru, og í síma 1700. Nánari upplýsingar hér.