1.101 hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir sem starfa á Íslandi hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þau styðja við frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þar sem umskurður drengja er bannaður nema læknisfræðilegar ástæður liggi til grundvallar.

Undirskriftasöfnunin hefur staðið yfir síðustu daga og lauk núna á miðnætti.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, sem starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, er önnur þeirra sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni. Hún sagði í samtali við Fréttablaðið í kvöld að „Við gerum þetta helst til að fylgja eftir okkar siðareglum. Það stendur þar skýrt að við skulum standa vörð um okkar skjólstæðinga. Við teljum þetta vera óréttlætanlegt ef það eru ekki læknisfræðilega forsendur fyrir þessu.“

Að undirskriftarsöfnunni stóð einnig Íris Björg Bergmann Þorvaldsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sem er starfandi í Danmörku.

Um fimm þúsund skráðir hjúkrunarfræðingar eru á landinu að hennar sögn, þar af eru fjögur þúsund á vinnualdri, og taldi Katrín að um þrjú þúsund starfi við fagið í dag. Það er því stór hluti hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, sem eru á móti umskurði drengja, nema læknisfræðilegur grundvöllur sé fyrir því. 

 Í yfirlýsingu þeirra sem send var á Fréttablaðið í kvöld er vísað til siðareglna hjúkrunarfræðinga þar sem segir að „hjúkrunarfræðingar eigi að vera málsvarar skjólstæðinga sinna og standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þeirra.“ Enn fremur er kveðið á um í siðareglum ljósmæðra að í umönnun sinni fyrir konum og fjölskyldum skuli ljósmæður virða sjónarmið ólíkra menningarheima, en reyna á sama tíma að útrýma heilsuspillandi aðferðum. Yfirlýsingin er hér að neðan í heild sinni.

Frumvarpið var lagt fram í lok janúar á alþingi. Fyrsti flutningsmaður þess er þingkona Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir. Aðrir flutningsmenn þess eru Ólafur Þór Gunnarsson, Inga Sæland, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson.

Yfirlýsing hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í heild sinni

Við undirrituð, íslenskir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, lýsum yfir stuðningi við frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þar sem umskurður drengja er bannaður nema læknisfræðilegar ástæður liggi til grundvallar. Sjá; https://www.althingi.is/altext/148/s/0183.html

Siðareglur hjúkrunarfræðinga kveða á um að hjúkrunarfræðingar eigi að vera málsvarar skjólstæðinga sinna og standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Í siðareglum ljósmæðra er kveðið á um að í umönnun sinni fyrir konum og fjölskyldum þeirra virða ljósmæður sjónarmið ólíkra menningarheima en reyna jafnframt að útrýma heilsuspillandi aðferðum sem þar eru viðhafðar.

Í ljósi þess vilja hjúkrunarfræðingar og ljósmæður styðja þetta mikilvæga frumvarp.

Umskurður án læknisfræðilegrar ástæðu, er brot á réttindum allra barna og samræmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umskurður af trúarástæðum er ónauðsynleg aðgerð sem hefur í för með sér þjáningu, hættu á blóðmissi, sýkingu og veldur óafturkræfum breytingum á líkama barnsins.

Við umskurð er forhúðin fjarlægð. Forhúðin á litlum drengjum verndar getnaðarliminn fyrir óhreinindum og sýkingum. Hún er mjög næm þar sem í henni eru yfir 20 þúsund taugaendar. Á Íslandi hafa þessar aðgerðir alltaf verið gerðar í svæfingu. Það á því miður ekki við í öllum löndum þar sem þekkt er að aðgerðin er víða framkvæmd í engri eða ófullnægjandi deyfingu og ekki bara á sjúkrahúsum heldur einnig í heimahúsum og framkvæmd af trúarleiðtogum en ekki læknum. Aðgerðin getur því verið mjög sársaukafull eins og gefur að skilja. Eftir aðgerðina finna börnin líka sársauka sem þau skilja ekki og geta ekki tjáð sig um.

Öllum aðgerðum fylgir viss áhætta og umskurði geta fylgt alvarlegir fylgikvillar sem hafa áhrif á líf einstaklinganna alla ævi. Það er mikilvægt að réttur barns til heils líkama sé virtur og að hann vegi þyngra en réttur foreldra til taka ákvarðanir byggðar á trúarlegum eða menningarlegum hefðum. Kjósi drengir síðar að fylgja hefðum geta þeir gengist undir aðgerðina þegar þeir hafa náð 18 ára aldri og gera sér grein fyrir eðli aðgerðarinnar. Það er þá alfarið þeirra val.

Á Íslandi hafa þegar verið sett lög (nr.19/1940, með síðari breytingum) sem banna hverskyns limlestingar á kynfærum kvenna. Nú viljum við sjá að drengjum verði með lögum tryggð sama vernd og sömu réttindi. 

Yfirlýsingin og allar undirskriftir fylgja hér með í PDF skjali. Yfirlýsing Ljósmæðra Og Hjúkrunarfræðinga