Listamennirnir og hjónin Óskar Hallgrímsson og Mariika Lobyntseva eru búsett í Kænugarði og hafa verið í Úkraínu frá upphafi innrásar Rússa. Þau eru nú stödd á Íslandi til að opna sýningu á verkum sínum í Gallery Port. Óskar og Mariika voru nýkomin til landsins er blaðamaður hitti þau á kaffihúsi í miðbænum.

„Við erum náttúrlega bara búin að vera heima í þrjá daga en þetta er rosalega skrýtið. Ég held að við séum svona aðeins að lenda smá.“

Óskar er ljósmyndari og ólst upp í Hafnarfirði en Mariika er úkraínsk og ólst upp í hafnarborginni Ódesa, þriðju stærstu borg Úkraínu.

„Foreldrar mínir eru enn þá í Ódesa. Borgin er í fínu lagi en foreldrar mínir eru samt vel undirbúin. Mamma mín var svo stressuð að hún eyddi þremur dögum í að grafa skotgröf í garðinum. Þau eru nefnilega ekki með neinn kjallara. Þau voru að setja saman mólotovkokteila með ömmu minni sem er 83 ára og prófessor í augnlækningum.“

Spurð um hvort einhverjir fjölskyldumeðlimir hennar hafi yfirgefið Úkraínu segir Mariika þau öll vera enn í Ódesa að undanskildum bróður hennar sem stundar nám í Varsjá í Póllandi.


Kynntust í gegnum tattú


Óskar og Mariika kynntust árið 2019 þegar Óskari var boðið á ljósmyndabókahátíð í Kænugarði. Mariika kom á básinn til Óskars sem var að kynna ljósmyndabók sem hann hafði gert og þau byrjuðu að spjalla út frá því.

„Hún addar mér á Insta­gram og ég sé að hún er tattúlistamaður. Ég fer í tattú til hennar og þannig kynnumst við almennilega. Ég ákvað að fá mér tattú aðallega af því mér fannst hún sæt.“

Eftir að Óskar fór frá Úkraínu héldu þau Mariika sambandi. Eitt leiddi af öðru og árið 2020 flutti Óskar til Úkraínu og sama ár giftust þau.


Vöknuðu við sprengingar


Förum aftur til upphafsins. 24. febrúar voruð þið stödd í Kænugarði. Hvernig var tilfinningin þegar þið vissuð að stríðið væri byrjað?

„Klukkan fimm um morgun 24. febrúar vakna ég við eitthvað. Ég sef mjög laust en við vissum að þetta væri á leiðinni, það var bara búið að hanga yfir okkur. Ég vakna við sprengingu og vek Mariiku og þá heyrum við tvær sprengingar í viðbót. Síðan bíðum við aðeins og svo heyrum við fleiri sprengingar. Það fyrsta sem Mariika segir er: I need to wash my hair. Það er fyrsta setningin sem kemur upp úr henni,“ segir Óskar og hlær.

Mariika: „Ég bara trúði þessu ekki.“

„Síðan bíðum við aðeins og svo heyrum við fleiri sprengingar. Það fyrsta sem Mariika segir er: I need to wash my hair. Það er fyrsta setningin sem kemur upp úr henni."

Óskar

Óskar sagði Mariiku að örvænta ekki en það væru sprengingar fyrir utan og þau þyrftu því að vera tilbúin til að yfirgefa borgina. Hann segir þau hafa gert sig til og safnað saman öllum þeim hlutum og pappírum sem þau þyrftu. Íbúð Óskars og Mariiku er á öruggum stað í Kænugarði og buðu þau vinafólki sínu að dvelja hjá sér fyrstu tvo dagana.

Óskar: „Við sjáum bara panikkið og við tökum ákvörðun um að gera ekki neitt í panikki. Panikkákvarðanir eru bara ekki í boði. Þannig ef það er eitthvað sem okkur dettur í hug að gera, þá skulum við ekki gera það strax, bíðum aðeins, fylgjumst með og förum yfir hlutina.“

Íhuguðu að flýja


Þau hjónin fylgdust grannt með ástandinu þessa fyrstu daga stríðsins. Fólk streymdi úr Kænugarði og langar bílaraðir mynduðust á vegunum fyrir utan höfuðborgina. Óskar og Mariika íhuguðu líka að flýja fyrst um sinn.

„Við litum í kringum okkur og sáum hvað vinir okkar voru að ganga í gegnum. Þeir sem fríkuðu út og panikkuðu. Fóru bara með fötin á bakinu og peningana sem þau voru með í veskinu. Það voru að myndast margra kílómetra raðir við landamærin að Póllandi, Lvív var að fyllast og allt stopp á leiðinni. Síðan sáum við að borgin okkar fór að vígbúast. Við heyrðum bardagana utan í borginni, heyrðum loftvarnirnar á milljón, það voru svakalegar sprengingar og þá urðum við svolítið hrædd.“

Hann segir þau hafa vegið óvissuna við það að flýja upp á móti hættunni á því að vera og komist að niðurstöðu.

Hjónin ákváðu að halda kyrru fyrir í Kænugarði enda vildu þau ekki ana út í óvissuna og hættuna. Fréttablaðið/Valli

Óskar: „Við upplifðum okkur örugg heima hjá okkur svo við settum þetta bara á vogarskálarnar. Viljum við kvíðann af því að vera á vergangi einhvers staðar, í einhvern tíma í burtu frá heimilinu okkar eða vera heima hjá okkur þokkalega örugg? Við vorum alltaf bara að pæla í geðheilsu okkar og öryggi.“

Mariika: „Mér fannst ég ekki örugg að vera í bíl á opnum vegi eða í lest með allar þessar sprengingar. Ég vildi ekki fara, ég vildi ekki yfirgefa stúdíóið okkar, listina okkar, eigurnar okkar. Ég veit ekki hvort það er heimskulegt en ég trúði því ekki að þeir myndu ráðast inn í borgina.“

Eins og í bíómynd


Spurð um hvort og hvenær lífið hafi farið aftur í venjulegar skorður í Kænugarði segir Óskar að fyrst um sinn hafi ekki verið um neitt venjulegt líf að ræða.

Óskar: „Við stóðum á stærstu umferðargötunum og þær voru alveg tómar. Það voru engir bílar og engin umferð. Það eina sem þú sást var eitthvað tengt hernum, herjeppar, eftirlitsstöðvar, þetta var bara eins og í bíómynd og í raun rosa óhugnanlegt. Þetta var náttúrlega í febrúar og Kænugarður er rosa köld og blaut borg á veturna, það verður allt einhvern veginn mjög sovéskt í útliti.“

„Við stóðum á stærstu umferðargötunum og þær voru alveg tómar. Það voru engir bílar og engin umferð. Það eina sem þú sást var eitthvað tengt hernum, herjeppar, eftirlitsstöðvar, þetta var bara eins og í bíómynd og í raun rosa óhugnanlegt."

Óskar

Óskar líkir ástandinu í upphafi stríðs við samkomubannið í miðju Covid, nema hvað að borgin var smám saman byrjuð að tæmast, bæði af fólki og vistum. Það hafi verið sérstaklega óhugnanlegt þegar matvörubúðirnar fóru að tæmast og flestum apótekum var lokað enda þarf Óskar að taka lyf daglega.

Óskar: „Síðan hægt og rólega fór það að breytast. Vorið fór að koma og öryggistilfinningin með, af því það voru hermenn úti um allt í borginni. Þeir stoppuðu mig mjög oft, miðuðu meira að segja byssum á mig. Þeir sáu að ég er útlendingur, blaðamaður, með myndavél og að taka myndir á símann minn, en núna geri ég það ekki af því ég veit að það er öryggisógn.“

„Þeir stoppuðu mig mjög oft, miðuðu meira að segja byssum á mig. Þeir sáu að ég er útlendingur, blaðamaður, með myndavél og að taka myndir á símann minn, en núna geri ég það ekki af því ég veit að það er öryggisógn.“

Óskar

Óskar áttaði sig á því að það var engin leið fyrir úkraínsku hermennina að vita að hann væri ekki rússneskur njósnari. Hann hafi því byrjað að fara aðeins varlegar.


Finna til mikillar skyldu


Haldið þið að stríðið muni klárast einhvern tíma á næstunni eða mun það bara halda áfram að dragast á langinn?

Mariika: „Mig langar virkilega að trúa því að það klárist bráðum. Það er kannski bjartsýnt en það væri óskandi að það myndi klárast á þessu ári, líklega ekki samt. Það sem veitir mér innblástur núna er samstaða úkraínsku þjóðarinnar. Ég finn það sterkt í Kænugarði hvernig fólk er byrjað að átta sig á öllum áhrifunum sem Rússland hefur haft á okkur öll þessi ár.“

„Það sem veitir mér innblástur núna er samstaða úkraínsku þjóðarinnar."

Mariika

Óskar og Mariika opna sýninguna Comfortable Universe – Ljómandi þægilegt í Gallery Port í dag. Fréttablaðið/Valli

Óskar: „Við finnum til mikillar skyldu, virkilega. Ég er kominn með mjög sterkar rætur í Úkraínu. Og auðvitað þegar þú verður vitni að svona hreinni illsku þá finnst þér þú verða að gera eitthvað. Þegar þú sérð myrt börn í fjöldagröf þá verðurðu virkilega að gera eitthvað.“

Mariika: „Það er skrýtið fyrir mig að vera hérna á Íslandi, ég vil bara fara aftur heim og halda áfram að hjálpa eins og ég get.“

Óskar: „Þetta er ekki búið. Við erum með rödd og við erum með vopn. Vopnið okkar er þekking og upplýsingar. Ég er með myndavélina mína og vil skrásetja það sem er að eiga sér stað í þessum hræðilega harmleik.“